Nú styttist í hið árlega Flensborgarhlaup sem er orðinn stór viðburður hér í Hafnarfirði sem allir í fjölskyldunni geta tekið þátt í. Hlaupið fer nú fram í níunda sinn þriðjudaginn 17. september kl 17.30.

Allir sem koma að hlaupinu starfa í sjálfboðavinnu og er framkvæmt af starfsfólki og nemendum Flensborgarskólans með dyggum stuðningi frá Hlaupahópi FH, Skokkhópi Hauka og Hafnarfjarðarbæ.  Allur ágóði af hlaupinu rennur til góðgerðarmála og í ár rennur ágóði þess óskiptur til Bergsins Headspace, en Bergið er stuðnings- og ráðgjafasetur sem veitir einstaklingsmiðaða ráðgjöf og þjónustu til ungmenna upp að 25 ára aldri.

Eins og áður er boðið uppá þrjár vegalengdir, 10 km og 5 km með tímatöku og 3 km án tímatöku. Hlaupið hefst við strætisvagnaskýlið á Fjarðargötu gegnt íþróttahúsinu (við Strandgötu) og hlaupið er á göngustígnum í átt að Álftanesi og út á Álftanes fyrir þá sem hlaupa 10km. Farin er sama leið til baka niður á Fjarðargötu. Drykkjarstöð er á miðri leið fyrir þá sem hlaupa 10 km.

Veitt verða verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin í kvenna- og karlaflokki. Aldurflokkar eru tveir: 17 ára og yngri og 18 ára og eldri. Einnig verða fjöldi glæsilegra útdráttarverðlauna sem allir eiga möguleika á. Verðlaunaafhending hefst kl 18.30 í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, en þar verður einnig heitt á könnunni og næring fyrir hlaupara að hlaupi loknu.

Forskráning er á hlaup.is til kl. 12 á hádegi á hlaupadegi. Ekki er hægt að skrá sig á staðnum en afhending keppnisgagna hefst kl 16.00 á hlaupadegi í Safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju.   Á heimasíðu hlaupsins www.flensborgarhlaup.is má fá nánari upplýsingar um hlaupið og nákvæma lýsingu á hlaupaleiðum. Allir hjartanlega velkomnir.