Meistaraflokkur FH í handbolta karla mun verða í eldlínunni föstudagskvöldið 8.mars en þá leika FH-ingar í undanúrslitum Coca-Cola bikarsins gegn ÍR. Leikurinn fer fram í Laugardalshöll og hefst klukkan 20:15. Takist FH að leggja ÍR að velli, fara þeir í úrslitaleikinn klukkan 16:00 á laugardaginn og því eru aðeins um 18 klukkustundir á milli leikja. Líklegt verður að teljast að Valsmenn verði andstæðingurinn þar en Valur mætir Fjölni í hinum undanúrslitaleiknum.

Bikararkeppnin hefur verið þyrnir í síðu FH um árabil. FH vann síðast bikarinn árið 1994 og eru því liðin 25 ár síðan þetta stórveldi í íslenskum handbolta lyfti dollunni í Laugardalshöll. FH mætti KA í úrslitaleiknum og hafði betur, 30-23. Leikmenn FH gerðu sér lítið fyrir og skokkuðu svo með bikarinn heim til Hafnarfjarðar eftir leikinn!

Margir kunnir FH-ingar eru að leggja lóð á vogarskálarnar og hvetja fólk til að mæta í höllina, þ.a.m. atvinnumaðurinn Ísak Rafnsson í skemmtilegu myndbandi.

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH var meðal áhorfenda í höllinni fyrir 25 árum og studdi að sjálfsögðu sína menn í KA. Hann er bjartsýnn á gott gengi og segir löngu tímabært að koma með bikarinn heim til Hafnarfjarðar.

Til að vinna ÍR þurfum við að spila góða vörn og fá góða markvörslu. Í sókninni þurfum við að passa okkur á tæknifeilum og að leyfa ekki ÍR að stjórna hraða leiksins. Fyrirkomulagið er bara eins og það er og algjörlega tilgangslaust að vera að væla yfir því,“

Leikurinn gegn ÍR verður mjög erfiður og þar gæti stuðningur áhorfenda ráðið úrslitum.

Ég vil hvetja alla stuðningsmenn FH til að mæta í höllina og styðja strákana. Við erum með frábært lið sem FH-ingar eiga að vera stoltir af og styðja í blíðu og stríðu. Stuðningurinn skiptir miklu máli og þið getið verið áttundi maðurinn í leiknum. Áfram FH,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.

Mynd: J. Long