Hafnarfjarðarbær og Sport-Tæki ehf. undirrituðu í gær samning um kaup og uppsetningu á áhorfendabekkjum í Ólafssal, íþróttahúsi Hauka að Ásvöllum.

Samningurinn nær til fullbúinna áhorfendabekkja með stólum meðfram hliðum vallarins en áætlað er að bekkirnir verði tilbúnir til notkunar 1. ágúst 2019.

Stólarnir verða rúmlega 600 talsins og frá sumri geta því leikir í efstu deildum körfuboltans farið fram í salnum. Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu mikil bylting þetta verður fyrir alla umgjörð og aðstöðu körfuboltadeildarinnar. Haukar ætla sér að verða í fremstu röð í bæði karla- og kvennaflokki um ókomin ár og Ólafssalur gegnir stóru hlutverki í þeirri vegferð.

Ólafssalur er nefndur til heiðurs Ólafs Rafnssonar fyrrum forseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og forseta FIBA Europe sem lést langt fyrir aldur fram árið 2013. Ólafur Rafnsson var einnig formaður kkd. Hauka og leikmaður Íslandsmeistaraliðsins 1988.

Mynd: Hafnarfjarðarbær. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri handsalar samninginn við fulltrúa Sport-tækja ehf.