Fyrsti hlaðvarpsþátturinn (podcast) í samstarfi við Fjarðarpóstinn, Hafnfirðingurinn, fór í loftið í morgun. Þar settist Tryggvi Rafnsson niður með stórleikaranum og Hafnfirðingnum Jóhannesi Hauki Jóhannessyni.

„Jóhannes Haukur hefur sannarlega verið að gera það gott í kvikmyndaheiminum undanfarin ár, bæði hérlendis og á erlendri grundu, með hverri stórmyndinni á fætur annarri. Hann er einstaklega skemmtilegur viðmælandi og frábær gæi,“ segir Tryggvi, alsæll með fyrsta þáttinn, sem hægt er að nálgast á öllum helstu hlaðvarpsveitum undir heitinu Hafnfirðingurinn. Einnig hefur verið stofnuð Facebook síða undir sama heiti.

Hlaðvarpsþættirnir Hafnfirðingurinn verða vikulega á dagskrá og verður spennandi að fylgjast með hvaða viðmælendur Tryggvi fær í sófann til sín í Mathiesen stofu í Bæjarbíói á næstu vikum.

Mynd: OBÞ