Fyrir 30 árum, 10. maí, stofnaði Jóhannes Viðar Bjarnason, oftast þekktur sem Jói, veitingastaðinn Fjörukrána við Víkingastræti hér í bæ. Fimm árum síðar kom hann hinni einu sönnu Víkingahátíð á legg. Fyrir 20 árum opnaði Jói svo hótelið sem í dag heitir Hotel Viking. 85% af viðskiptavinum víkingaþorpsins eru erlendir ferðamenn svo að hann horfir fram á að breyta áherslum til að ná til fleiri Íslendinga og heimamanna. Haldið verður upp á 30 ára afmælið seinna í maí. 

„Þegar Trump lokaði Ameríku þá féllu niður allar pantanir um hótelherbergi og á veitingastaðnum, en þær höfðu verið þónokkrar og góðar horfur í bókunum fyrir árið. Ég var alveg búinn að undirbúa minni innkomu á þessum tíma árs (í febrúar til apríl) en ég bjóst ekki við að þurfa svo að loka á þessum forsendum svo snögglega,“ segir Jói. Matseðill Fjörukrárinnar hefur m.a. miðast við væntingar erlendra gesta, sem ekki endilega höfðar til Íslendinga, og sér Jói því fram á að breyta matseðlinum. „Já, ég ætla að hafa meira af pizzum, hamborgurum og þeim réttum sem vinsælir voru fyrir. Við erum að skoða þetta núna og undirbúa fyrir nýja opnun og verðum með ýmsar uppákomur í tilefni afmælisársins. Söngvarar sem og hljóðfæraleikarar hafa einkennt Fjörukrána munu stíga á stokk, á því verður engin breyting meðan á borðhaldi stendur. Höldum þeim áfram og sköpum stemningu. Við tökum þrjá mánuði í senn og sjáum hvernig gengur.“ Opið verður fjóra daga í viku, frá fimmtudegi til sunnudags, frá kl. 16:30 – 22:30. Eldhúsið lokar kl. 22. Einnig verður tíminn nýttur í að taka 2. hæð hótelsins í gegn og skipta út innviðum.

Nánar verður fjallað um stórafmæli Fjörukrárinnar og Viking Hotel í næsta tölublaði Hafnfirðings, 20. maí.

Mynd/OBÞ

Þetta er kynning.