Síbylja er þekkt aðferð til að dylja vondan málstað, að endurtaka það sama aftur og aftur í von um að verði þess vegna réttara. Þessi aðferðarfræði er meirihlutanum í Hafnarfirði kærkomin, einkum þegar kemur að skipulags- og byggingarmálum og lætur staðreyndir mála í léttu rúmi liggja. 

Það er sannarlega tímbært að taka til hendi við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Hafnarfirði, þar sem hvorki hefur gengið né rekið undir forystu Sjálfstæðisflokksins síðustu ár. Það er afar brýnt að nýta vel það byggingarland sem fyrir er með þéttingu byggðar, sbr. fyrirhugaða uppbyggingu á Hraun vestur.

Umrætt svæði hefur verið kallað “andlit” Hafnarfjarðar m.a. af núverandi bæjarstjóra, enda er þetta hverfið sem tekur á móti fólki þegar komið er inn í Hafnarfjörð. Unnið var vandað rammaskipulag í samráði við íbúa og hagsmunaaðila sem lagði grunninn að framtíðarsýn fyrir svæðið og uppbyggingu þess. Það var kynnt bæjarbúum og samþykkt í skipulags- og byggingaráði, en svo hafnað af meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn.

Nú liggur fyrir deiliskipulagstillaga fyrir fyrsta áfanga uppbyggingarinnar. Meirihlutinn fullyrðir að tillagan sé í samræmi við rammaskipulagið en horfir fram hjá því að verið er að auka byggingarmagnið verulega, mikil fjölgun bílastæða og fækkun grænna reita. Hæðir húsa fara úr 4-6 í 8 hæðir með tilheyrandi skuggavarpi og vindþrýstingi. Þá hefur ekki verið gerð áætlun um hvernig þessa mikla frammúrkeyrsla hefur á hverfið í heild sinni hvað varðar skólamál og umferð. Samráðið með fólkinu fjallaði ekki um þetta og hér skortir skýra framtíðarsýn fyrir það sem á að vera „andlit“ Hafnarfjarðar. 

Skipulagsmál fjalla um hvernig við viljum að sjá bæinn okkar þróast og vaxa til framtíðar. Mikilvægt er að standa vörð um gæði byggðar og láta ekki sérhagsmuni ráða þar för. Hér þarf að vanda til verka og eiga gott samráð við íbúa. Það er dýrkeypt fyrir Hafnarfjörð, þegar hentistefna og hringlandi mótar för, eins og núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur staðið að verkum.

Stefán Már Gunnlaugsson

Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði