Þetta ár ætlar heldur betur að reyna á okkur. Ég ætla ekki að fara í að telja það upp hér sem hefur dunið á og ekki heldur óvissuna sem bíður okkar og mun snerta þjónustu og atvinnulíf verulega. Það er nóg um það í fréttum um allt. Og við fjöllum einnig um það víða í blaðinu. Það sem mér býr í brjósti á þessum einkennilegu tímum er hvernig við getum staðið þetta af okkur og komið sem heilust út hvað andlega heilsu varðar. 

Við sjáum falleg dæmi um fólk sem brestur í söng eða hljóðfæraleik úti á svölum fyrir nágranna og á föstudag verður klappað fyrir starfsfólki í íslenska heilbrigðiskerfinu í mínútu á slaginu 19, hvar sem fólk verður statt. Hér í Hafnarfirði hafa sjálfboðaliðar boðist til að skjótast í sendiferðir fyrir þá sem eru veikir fyrir eða í sóttkví, í gegnum íbúasíður og mikilvægu Facebook síðuna Hafnarfjörður og Hafnfirðingar. 

Fjölmennt starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar stendur í ströngu við að láta samfélagið virka sem best miðað við reglur um sóttvarnir og almannavarnir. Og atvinnulífið miðar sína þjónustu við sömu kröfur og horfir í lausnir til að halda rekstri gangandi. Þetta er allt mjög virðingarvert og hróss vert. Ég hvet Hafnfirðinga til að beina viðskiptum sínum til fyrirtækja hér í bæ, bæði núna og eftir að samkomubanni lýkur. Það skiptir svo miklu máli og í því endurspeglast samstaðan. 

Það er dálítið skrýtið fyrir knúsara að mega ekki rífa í spaðann á fólki eða veita gott faðmlag í fjórar vikur, En þá komum við einmitt að lærdómnum sem hlýst af ástandi sem þessu. Við áttum okkur áþreifanlega á því hvað við erum á venjulegum dögum heppin með margt sem okkur þótti sjálfsagt – og hlökkum til að geta notið þess alls aftur. 

Farið vel með hvert annað og ykkur sjálf.  

Olga Björt Þórðardóttir,
Útgefandi og ritstjóri Hafnfirðings.