Fræðsluráð Hafnarfjarðar ákvað nýlega að hafa leikskóla bæjarins opna allt árið. Aukið valfrelsi, meiri lífsgæði og betri þjónusta eru orð sem fylgdu með þessari ákvörðun. Allt eru þetta ágætis frasar en þessi afstaða er í engum tengslum við raunveruleikann sem starfsfólk leikskólanna býr við á hverjum degi. Léleg laun, mannekla, mikil starfsmannavelta og aukið álag er veruleikinn sem blasir við.
Ef þessi ákvörðun Fræðsluráðs mun standa munu gæði leikskólastarfsins rýrna. Þetta mun gera allt starf leikskólanna erfiðara og ekki var það auðvelt fyrir. Það er þess vegna óskiljanlegt að ekki sé betur hlustað á fagfólkið. Oft heyrist í umræðunni að þetta geti orðið frábært tækifæri fyrir leikskólanna að ráða inn sumarstarfsfólk. Þessi afstaða er hrópandi dæmi um metnaðarleysi samfélagsins fyrir fyrsta skólastiginu.
Í dag er hlutfall leikskólakennara Hafnarfjarðar undir 30%. Meðalaldur er mjög hár á mörgum leikskólum bæjarins og nýliðun í starfstéttinni lítil sem engin. Á mörgum deildum leikskólanna er aðeins einn fagmenntaður leikskólakennari og á sumum enginn. Hafnarfjörður brýtur lög á hverjum degi því hlutfall faglærðra á að vera að lágmarki 67%. Hvar eru foreldrar í þessari umræðu? Kröfurnar sem settar eru á leikskólana eru alltaf að aukast. Snemmtæk íhlutun, læsisstefna og nú síðast menntastefna eru mikilvæg atriði sem verða ekki unnin nema af fagfólki. En hvernig á að vinna eftir þessu ef 70% starfsfólks leikskólanna er ekki fagmenntað?
Ég skil vel að margir eiga erfitt með að fá sumarfrí í júlí. Það er bagalegt að geta ekki verið með börnunum sínum í sumarfríinu. Sjálfur hef ég lent í vandræðum með þetta eins og aðrir. En að setja það vandamál yfir á leikskólann og láta hann um að leysa það er að mínu mati óskiljanlegt. Leikskólinn er í alvarlegri stöðu og má alls ekki við auknu álagi. Allir leikskólastjórar bæjarins ásamt 390 starfsmönnum leikskólanna hafa mótmælt þessari ákvörðun. Þetta er fólkið sem vinnur við þetta fimm daga vikunnar og þekkir þessi mál miklu betur en Fræðsluráð Hafnarfjarðar og hvað þá foreldrar.
Það er sorglegt að fylgjast með bæjaryfirvöldum vinna í rauninni gegn hagsmunum leikskólanna. Staðan er grafalvarleg í leikskólamálum bæjarins og á landinu öllu ef út í það er farið. Leikskólinn þarf stuðning og hjálp en í staðinn þarf hann að eyða orku og tíma í að verjast svona vanhugsaðri ákvörðun. Þessi ákvörðun Fræðsluráðs mun gera leikskólastjórum enn erfiðara en áður að halda uppi faglegu starfi, skipuleggja árið, manna deildir og halda í frábært starfsfólk sem er svo sannarlega til staðar. Leikskólakennarar munu horfa enn meir til grunnskólanna og er það fullkomlega eðlilegt.
Ég skora á Fræðsluráð Hafnarfjarðar að hverfa frá þessari ákvörðun og einbeita sér frekar að mun alvarlegra vandamáli sem er skortur á fagmenntuðu starfsfólki. Vinnið frekar með starfsfólki leikskólanna en ekki gegn því. Fjölgið fagmenntuðu starfsfólki, bætið starfsaðstæður og færið þannig leikskólann inn í nútímann. Gerið Hafnarfjörð að því sveitarfélagi sem horft er til í leikskólamálum.
Tómas Leifsson
Höfundur er foreldri barns á leikskóla í Hafnarfirði