Ný sýning hefst í dag í Litla Gallerýinu við Strandgötu 19, en þar mun Hafnfirðingurinn Rósa Sigurbergsdóttir sýna og selja verk sín, sem eru ljósmyndir, aðallega náttúrumyndir, sem sumar enda líka á striga.

Rósa er fædd í Hafnarfirði 1957. Hún stundaði nám í Verzlunarskóla Íslands og Kennaraskóla Íslands og hefur kennt í Öldutúnsskóla frá 1982. Náttúran og útivist hafa verið henni hugleikin alla tíð og hefur hún stundað ferðalög um allt land og þá gjarnan farið á fáfarnar slóðir og jafnan haft myndavélina með sér. Hún hefur tekið mikið af ljósmyndum í gegnum tíðina.

Rósa hefur alla tíð haft mikinn áhuga á myndlist og stundað myndlistasýningar hér heima og erlendis. Árin 2007-2008 stundaði hún nám við Endurmenntun Kennaraháskóla Íslands, lagði áherslu á listgreinar. Hún komst þá í náin kynni við leirlist og olíumálun sem heillaði hana. Rósa naut handleiðslu Jóns Reykdal á þessum tíma og hefur stundað málun síðan þá. Rósa hefur sótt námskeið í málun í Myndlistaskólanum í Reykjavík og Myndlistarskóla Kópavogs um árabil.

Hún hélt einkasýningu í Íshúsi Hafnarfjarðar vorið 2016, sem var vel tekið. Nánasta umhverfi í Hafnarfirði og nágrenni fangar gjarnan athygli Rósu. Hún á það til að smella af myndum af því sem vekur hughrif og það kemur fyrir að þessi mótíf rata á strigann.

Sýning þessi ber heitið „Stóla á þig“ og eiga verkin það sameiginlegt að
tengjast umhverfinu, stöðum og hlutum sem grípa augað. Á sýningunni má t.d. finna málverk af ryðguðum stól sem Rósa hefur staðsett á mismunandi stöðum og málað.

Hér er slóð á viðburðinn á Facebook.