Lesendur Fjarðarpóstsins kusu lögreglumanninn Guðmund Fylkisson sem Hafnfirðing ársins 2018. Könnunin fór fram á vef Fjarðarpóstsins á milli jóla og nýárs. Guðmundur er orðinn landsþekktur í hlutverki sínu við að hafa uppi á börnum sem runnið hafa út af spori velgengni og hamingju. Guðmundur segir m.a., í viðtali við Fjarðarpóstinn, að varast skuli staðalímyndir barna í slíkum sporum, því ástæðurnar séu margar og ólíkar.

Kristín María Indriðadóttir

„Mér fannst Stína Maja [Kristín María Indriðadóttir, fyrrverandi verkefnastjóri Fjölgreinadeildar Lækjarskóla] eiga þetta meira skilið en ég, þótt mér þyki vænt um að fólk virði það sem ég geri. Ég held að fólk átti sig ekki á því hversu miklar fjárhæðir fara í málaflokka þar sem hlutirnir fara úrskeiðis, þar sem hægt hefði verið að sporna gegn. Þær skipta tugum og jafnvel hundruðum milljóna árlega. Ein króna sem fer í svona skilar sér áttfalt til baka. Það er svo mikilvægt að grípa snemma inn í. Krakkar sem falla ekki alveg inn í normið hafa fengið annað tækifæri hjá Stínu Maju, þótt hluti þeirra hafi ratað á minn verkefnalista. Það er svo mikilvægt að hlúa að þessum hópi,“ segir Guðmundur, sem er að eigin sögn „aðfluttur andskoti“ því Kratar hafi flutt inn vestfirskan Framsóknarmann árið 1987 og ráðið hann í slökkviliðið.

„Þú verður útbrunninn innan árs!“

Vegna þess að engin forvarnavinna á sér stað á vegum embættis lögreglunnar segir Guðmundur að mikið sé haft samband við sig og í starfi sínu sé hann í raun heilmikill slökkviliðsmaður. „Ég slekk öðruvísi elda og reyni að gera það nógu snemma áður en allt fer í óefni. Þá er það viss forvörn. Ég á orðið ansi marga félagsráðgjafa og annað barnaverndarstarfsfólk sem vini og þeir skjóta stundum góðlátlega á mig að þau geri alla vinnuna en ég fái umbunina og athyglina.“ Hann segir umhverfið sem þau starfi við sé ákaflega þrúgandi þótt það sé stundum líka gefandi. „Þegar ég byrjaði í núverandi starfi fór ég í heimsókn til þeirra og var þrálátlega spurður að því hvort ég yrði virkilega einn. Svo var sagt að ég yrði útbrunninn innan árs! Nú er farið að líða á 5. árið og ég er hér enn. Munurinn er bara sá að þau eru kannski búin að vera kannski með sama aðilann í alls kyns velferðarvinnu, jafnvel alla fjölskylduna. Ég gríp bara inn í og svo þarf barnavernd að taka við aftur og fylgja eftir.“

Guðmundur þegar hann hélt fyrirlestur í Flensborgarskóla.

Hversu langt á þagnarskylda að ná?

Guðmundur segir að sem betur fer hafi honum langoftast gengið vel í sínu starfi þótt oft hafi mikið gengið á. „Vissulega koma krakkar sem ég hef sótt aftur og aftur í fjögur ár og eru svo orðin 18 ára. Ég fæ þó miklu jákvæðu endurgjöfina og á henni þrífst ég í þessu starfi og þess vegna get ég þetta. Stundum er starfsfólk barnaverndar dregið fyrir dómstóla og alls konar. Þetta eru innan-fjölskyldumál og mjög erfið mál.“ Hann segist oft spyrja sig að því hversu langt þagnarskylda á að ná. Einstaklingar komi fram í fjölmiðlum með einhliða frásagnir af eigin upplifun og segi jafnvel ósatt og nafngreini barnarverndarstarfsmenn, sem svo megi ekki lögum samkvæmt svara fyrir sig.

„Við lögreglumenn erum líka einstaklingar með okkar persónulega líf og okkur er jafnvel úthúðað í fjömiðlum með einni hlið máls og í raun ættum við að kæra slíkt. Ég hef í tvö ár verið með réttarstöðu sakbornings fyrir ólögmæta handtöku og húsleit að mati einhvers sem var mögulega. Við vorum bara þarna á vegum embættisins með úrskurð í höndunum. Þessi maður gekk í gegnum erfiða hluti með þessu en ég bæti ekkert ofan á með að kæra hann fyrir að skjóta sendiboðann. Ég hef lengi verið í nefndum og félagsmálunum hjá lögreglunni og hluti af þeim störfum er að reyna að færa persónu lögreglumanna út úr kerfinu og nota númer í staðinn. Eins og mitt er 8420 og ég á að koma fram undir því. Fólk á að kæra stofnunina en ekki persónuna sem mætti á vegum embættisins.“

Ungi brunavörðurinn Guðmundur á sínum tíma.

Leitarbeiðnum fjölgar á milli ára

Leitarbeiðnir sem sem Guðmundur fékk á síðasta ári voru 285. Árið 2017 voru þær 249 og 190 árið 2016. Einstaklingarnir voru 102 og þeim fjölgar líka. Rúmur helmingur kom nýr inn í fyrra. Í sumum tilfellum nægði að hringja eða senda sms og börnin skiluðu sér heim eða eftir að leitarbeiðni er send út. Það þurfti að leita að um fjórðungi hópsins. Guðmundur hefur frá upphafi leitað að 260 einstaklingum frá upphafi einn þeirra er látinn (var reyndar orðinn 18 ára þegar hann lést). Yngsta barnið var 11 ára. „Þetta eru ekki allt krakkar í neyslu, heldur kannski í andlegum veikindum, með hegðunarvanda og jafnvel búið að fóstra utan heimilis. Þau eru jafnvel að reyna að komast heim aftur. Þetta eru ekki einhverjar tilbúnar staðalímyndir sem ég leita að; ýmsar ólíkar ástæður fyrir vanlíðan og óhamingju þeirra,“ segir Guðmundur.

193. GR. ALMENNRA HEGNINGARLAGA 19/1940.

BARNSRÁNSÁKVÆÐI. HVER, SEM SVIPTIR FORELDRA AÐ AÐILA VALDI EÐA UMSJÁ YFIR BARNI, SEM ÓSJÁLFRÁÐA ER FYRIR ÆSKU SAKIR, EÐA STUÐLAR AÐ ÞVÍ , AÐ ÞAÐ KOMI SÉR UNDAN SLÍKU, SKAL SÆTA  FANGELSI ALLT AÐ 16 ÁRUM EÐA ÆVILANGT.

Viðurlög allt að 16 ára fangelsi

Talið berst aftur að tilnefningum til manns ársins og hjá fleiri fjölmiðlum en Fjarðarpóstinum. Guðmundur segir að í raun raski slíkt starfi sínu þótt honum þyki vænt um að fólk kunni vel að meta það. Hann útskýrir: „Ef ég auglýsi eftir krökkum þá fer kastljósið á mig og hefur áhrif á störf mín. Stelpa sem leitað var að fyrir og um aðfangadag fór að lokum á Stuðla og ungi maðurinn sem hjálpaði henni að fela sig var handtekinn. Samkvæmt 193. grein hegningarlaga eru viðurlög við slíku allt að 16 ára fangelsi. Ég beið t.d. fram yfir kosningar um mann ársins með segja fjölmiðlum að þessi maður var handtekinn og sé í gæsluvarðhaldi vegna þess og annarra uppsafnaðra brota.“

Við þetta bætir Guðmundur að hjá lögreglunni séu mál þar sem fólk hefur verið dæmt í skilorðsbundið fangelsi, þó oft með öðrum brotum, eftir að hafa haft ungling í fórum sínum. „Það féll dómur í fyrra. Karlmaður á sextugsaldri dæmdur í 7 ára óskilorðsbundið fangelsi sem byrjaði braut á strák kynferðislega í einhvern tíma. Maðurinn hafði enga aðra sögu. Þegar fjölmiðlar fjölluðu um dóma í árlegum annálum þá var ekki minnst á þennan dóm, bara manndrápsmál. Þessi dómur varð þyngri en t.d. ég bjóst við og ég held að það sé alveg klárlega fordæmisgefandi og þetta hefur þau áhrif að fólk sem er svona þenkjandi hlýtur að hugsa sig tvisvar um. Þungir dómar hafa fælingarmátt.“

Guðmundur að störfum.

Erfitt að grípa inn í við sjálfráða aldur

Guðmundur nefnir annað dæmi, fjóra karlmenn á aldrinum 28 ára 48 sem áttu í óeðlilegum samskiptum við sömu stelpuna, 15 ára gamla. „Við í lögreglunni vorum á því að þar væri verið að kaupa kynlíf með fíkniefnum eða öðru. Við fengum ekkert út úr stelpunni. Þetta mál var rannsakað en ekki hægt að sanna hvað hafði verið gert. Mennirnir voru handteknir og ég hef ekki séð síðan í þessum málflokki. Það virkar að handtaka þótt þeir fái ekki dóm. Svona einstaklingar koma stelpum oft heim til sín þegar auglýst hefur verið eftir þeim þar sem nafn, mynd og aldur koma fram. Þeir dúkka svo mögulega upp þegar þær eru orðnar 18 ára en þá eru þær orðnar sjálfráða og við getum ekkert gert.“

Spurður um þessi tímamót, þegar börn verða sjálfráða 18 ára, segir Guðmundur að fyrir foreldra sé það tvíþætt. „Annars vegar slaknar á ákveðinni spennu á milli foreldra og barna. Það er hálfa skrefið sem ég vil að fólk taki til baka; bakki aðeins út úr þeim þrönga ramma aðhalds. Hin hliðin er að þá verður kannski stjórnlaus neysla hjá manneskju eftir 18 ára aldur og foreldrar ekki tilbúnir að horfa upp á það og reyna að leita til mín. Ég reyni það sem ég get, sendi sms eða hringi. En ég get ekki leitað að þeim.“

Dæmigerð mynd af Guðmundi við störf sín – sífellt að svara símtölum.

Á móti lögleiðingu kannabis

Að sögn Guðmundar fara um 20-30 börn í hverjum 4000-5000 einstaklinga árgangi út af brautinni og t.d. lenda á verkefnalista hans. Þar af séu 2-3 krakkar ótrúlega hömlulausir í að prófa hvaða efni sem er. „Þetta er ekki góð þróun. Þau blanda saman efnum til að draga úr óþægilegu áhrifum annarra efna; lyfsseðilsskyld lyf og fíkniefni. Þessi börn eru áhrifagjörn og þetta viðhorf hefur smitáhrif á milli þerra. Hvaða áhrif mun þetta hafa á líkama þeirra, heilsu og heilann þeirra eftir 3-5 ár? Það er staðreynd að t.d. langavarandi kannabisneysla veldur geðveiki. Margir af þeim krökkum sem hafa prófað það einu sinni eru á geðdeid.“ Guðmundur segir endalausa jákvæða umræða með kannabis. „Ég hef ekki séð fulltrúa heilbrigðiskerfisins fara af stað með jákvæða umræðu um kannabis? Á meðan þeir gera það ekki þá vil ég ekki að þetta verði lögleitt. Það nægir mér að horfa upp á þá einstaklinga sem hafa tapað geðheilsunni. Í hópnum mínum eru krakkar sem voru jafnvel afrekskrakkar í íþróttum og líf þeirra og fjölskyldna umturnaðist og þau standa í bölvuðu ströggli í mörg ár.“

Við þetta vill Guðmundur bæta að þegar talað er um tíðni dauðsfalla af völdum notkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum þá deyja miklu fleiri fullorðnir af þeim völdum en ungmenni. Meðalaldurinn er um fimmtugt. Það hafi komið honum sjálfum á óvart þegar hann var fræddur um það. Umræðan verði bara svo mikil, eðlilega, þegar ungt fólk deyr af þessum orsökum.

„Það er ekki öllum gefið að sjá alltaf heildarmyndina. Guðmundur er lunkinn í því og finnur yfirleitt allt sem hann leitar að“ skrifaði félagi Guðmundar við þessa mynd hjá embætti Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu.

„Pabbi, ég er týnd!“

Guðmundur er einhleypur en á sjálfur fjögur börn, fædd 1991 til 2003, þar af eitt stjúpbarn. Spurður um hvað þeim finnst um starfið hans segir hann að skilningur þeirra í hans garð sé nokkurn veginn uppsafnaður. „Stundum senda mínar yngri mér skilaboð þegar þær sakna mín og segjast vera týndar og hvort hann geti fundið þær á þessum og þessum stað,“ segir Guðmundur og hlær. „Ég reyni að eiga góðan tíma með hverju þeirra fyrir sig og stinga af í sól og eitthvað. Þær eru líka komnar á þann aldur að þær nenna kannski ekki að vera eins lengi með mér í einu og áður. Ég rekst líka mikið á krakkana mína heima hjá fyrrum tengdaforeldrum mínum.“

Gamlir félagar áberandi í fjölmiðlum

Guðmundur nefnir til gamans að þegar hann var tilnefndur þá hugsaði hann til þess þegar Grímur Grímsson varð maður ársins hjá fjölmiðlum í fyrra. „Það er ákveðinn hópur sem hefur verið áberandi í fjölmiðlum í okkar „geira“, s.s. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, Rögnvaldur Óalfsson hjá Almannavörnum, Jón Svanbert Hjartarson framkvæmdastjóri Landsbjargar, Grímur Grímsson og svo ég. Við vorum vinnufélagar í lögreglunni á Ísafirði árið sem snjóflóðin féllu á Súðavík og Flateyri. Enn einn félagi okkar, Guðmundur Páll Jónsson  lögreglufulltrúi á stöð, eitt dúkkaði upp í umfjöllun um innbrot. Það voru 12 fastráðnir menn í lögreglunni á Ísafirði á þessum tíma. Við erum helmingur þeirra.“

Fólkið sem tekur aukaskrefin

Fyrir utan að ánafna Stínu Maju viðurkenninguna Hafnfirðingur ársins vill Guðmundur koma á framfæri að snertiflötur hans sé í raun víða og margir sem saman ættu þennan heiður skilinn. Margir á mörgum stöðum sem séu að gera eitthvað mikilvægt fyrir samfélagið sitt hægt og hljótt á meðan aðrir séu með kastljósið á sér. „Það er hellingur af fólki sem hefur skoðanir á samfélaginu og vija bæta það og koma ýmsu á en áberandi andlitin eru önnur. Svo má ekki gleyma barnaverndarkerfinu; fólkinu sem tekur aukaskrefin sem skipta sköpum, oft langt út fyrir sína starfslýsingu.“

Myndir: OBÞ og í einkaeigu Guðmundar.