Lesendur Fjarðarpóstsins hafa væntanlega tekið eftir einstaklega fallegum myndum sem prýddu bæði forsíðu og baksíðu síðasta tölublaðs. Bergdís Norðdahl er í starfskynningu hjá okkur á vegum Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar. Hún segir ljósmyndun og flugáhuga vera í raun hluti af sér sem manneskju. Bergdís verður hjá okkur um sinn og við erum afar glöð yfir því, enda mikil hæfileikamanneskja á ferð.

Síðan árið 2005 hefur Bergdís samtvinnað áhugasviðin sín með flugvélaljósmyndun af kappi og reynt að skrásetja flugsögu samtímans eftir bestu getu. Þá hefur hún afar got fréttanef og reynir að eltast við eldgos hérlendis auk þess að fylgjast náið með flugbransanum, bæði hér og erlendis. „Ljósmyndun hefur alltaf verið hluti af mínu lífi þar sem pabbi er flugáhugamaður (sjaldan fellur eplið langt frá eikinni) og var mikið að taka myndir. Í lok grunnskóla fékk ég smá videodellu, en það þróaðist aftur útí ljósmyndun þegar í Flensborg var komið, fyrst með góðri ‘fjölskyldumyndavél’, en síðan með alvöru myndavél,“ segir Bergdís. Á öðru ári fór hún að mynda ýmsa viðburði í skólanum en ári síðar vann hún við skólablaðið Draupni og færði sig yfir á fjölmiðlabraut um sama leyti. „Á endanum tók ég þátt í fjórum árgöngum af Draupni. Útskrifaðist síðan sem fjölmiðlatæknir, en útskrifarblaðið var fyrsta umbrotið sem ég gerði en ég hafði lært ýmislegt af félögunum í Draupni.“

Flugdagurinn 2017.

USAF Lockheed C-130J-30 Hercules

Flugdagurinn 2017.

Náði yfir erfiðasta hjallann

Eftir þetta lá leiðin í sagnfræði í HÍ en það nám gekk aðeins brösulega og Bergdís hætti eftir tvö ár. „Seinna árið mitt þar sat ég í ritstjórn Sagna, tímariti sagnfræðinema, þar sem ég tók einnig að mér umbrotið. Þá ágerðust þunglyndi og kvíði og ég gerði lítið þangað til að ég fór aftur í ræturnar og lærði ljósmyndun í Tækniskólanum, auk þess að ég var fengin til að sjá um umbrot Sagna aftur, án þess þó að vera í ritstjórn.“ Eftir að því námi lauk var Bergdís enn að kljást andlega líðan auk lágs sjálfsmats og sjálfsálits. „Ég treysti mér heldur ekki í að leita að samningi til að klára sveinsprófið. En ég náði að komast yfir erfiðasta hjallann, endurskilgreina sjálfa mig, klára bílprófið og komast á lyf við þunglyndi. Og síðan í samráði við lækna fékk ég tilvísun í Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar gegnum Virk þar sem ég fékk loksins stuðning og tækifæri til að vinna mig upp aftur.“

Bergdís með eintak af Fjarðarpóstinum fyrir utan Ísafoldarprentsmiðju. Mynd/OBÞ

Góð tengsl og félagsskapur

Það sem Bergdís finnur mest fyrir síðan hún byrjaði í Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar fyrir tæpu ári er félagsskapurinn og samheldnin en hún segist hafa verið heppin að lenda í góðum hóp sem hefur haldið góðum tengslum, byggt upp gott traust innbyrðis og einnig hittist utan hefðbundinnar dagskrár. „Einnig var mikilvægt að fá tækifæri til að byggja upp rútínu, finna öruggan samastað, virðingu og takast á við hæfilega krefjandi verkefni án þess að fara yfirum og lenda í baklás. Sl. haust var ég fengin til að sjá um umbrot og ljósmyndir fyrir 10 ára afmælisrit Starfsendurhæfingarinnar sem kom út um áramótin. Þegar ég lít til baka er ótrúlegt hversu mikill munur er á mér núna og fyrir örfáum árum, til hins betra, bæði andlega, líkamlega og félagslega. Það er hægt að komast í gegnum hina erfiðustu hindranir í lífinu með stuðningi vina, kunningja, ættingja og sérfræðinga.“

Bergdís á Flickr. 

Ljósmynd af Bergdísi/Patrik Gærdbo