Sumarstörfum fyrir námsfólk og frumkvöðla milli námsanna, 18 ára og eldri, var fjölgað til muna í sumar og hefur hluti hópsins hreiðrað um sig í nýsköpunarstofu í Menntasetrinu við Lækinn. Um er að ræða sumaratvinnuátak Hafnarfjarðarbæjar vegna atvinnuástandsins í þjóðfélaginu, í samvinnu við Vinnumálastofnun. Við ræddum við Idu Jensdóttur, verkefnastjóra í mannauðsteymi Hafnarfjarðarbæjar. 

Hópurinn sem starfar í Nýsköpunarstofunni í sumar. Mynd/OBÞ

„Bæjarráð Hafnarfjarðar ákvað í vor að skapa 250 ný störf í sumar vegna stöðunnar í samfélaginu. Við fengum úthlutað 160 störfum frá Vinnumálastofnun og um 75 ungir námsmenn sinna nú fjölbreyttum og skemmtilegum sumarstörfum s.s. á sviði umhverfis- og framkvæmdamála, upplýsingatækni, fræðslumála, fjölskyldumála, menningarmála og heilsueflandi samfélags í nýsköpunarstofu, á vettvangi eða í öðru húsnæði sveitarfélagsins. Vinnuskóli Hafnarfjarðar fékk önnur störf og fleiri til til úthlutunar hjá sér. Þeir fyrstu hófu störf fyrir réttum tveimur vikum síðan og þeir nýjustu í vikunni. Við erum enn að taka á móti nýju fólki,“ segir Ida, sem verður með aðsetur í nýsköpunarstofu í sumar og hópnum til aðstoðar. Auk þess hefur hópurinn greiðan aðgang að umsjónaraðilum starfanna og öðrum sérfræðingum innan sveitarfélagsins.  

Í setrinu. Mynd/OBÞ

Óraði ekki fyrir umsvifum sveitarfélagsins

Ida var ráðin tímabundið í mannauðsteymi Hafnarfjarðarbæjar í upphafi árs í margskonar verkefni og þar ber hæst innleiðing á nýju fræðslukerfi sem heldur utan um alla fræðslu til starfsfólks hjá sveitarfélaginu. Fleiri skemmtileg og krefjandi verkefni hafa fallið til og m.a. að aðstoða við þetta átaksverkefni. Áður var Ida stjórnandi, bæði i í leikskólanum Sjálandi sem hún stofnaði árið 2005 og Arnarskóla, sem hún ásamt góðu fólki opnaði 2017 og er grunnskóli í Kópavogi fyrir börn með þroskafrávik. „Mig óraði aldrei fyrir því áður ég kom hingað hversu mikil umsvif eru hjá þessu sveitarfélagi. Hluti af innleiðingu fræðslukerfisins er að hitta stjórnendur hjá bænum og þannig hef ég fengið innsýn inn í hlutverk þeirra og verkefni. Það er mjög mikið skemmtilegt og skapandi í gangi alls staðar og áskoranirnar á sama tíma margar. Ég er nýflutt í Hafnarfjörð en mér finnst ég vera orðinn hluti af þessu flotta samfélagi. Það segir ansi margt um þennan bæ.“ 

Eru að kynnast, spjalla og deila hugmyndum

Í nýsköpunarstofunni fæst unga fólkið, að sögn Idu, við alls kyns hluti. „Þau eru að fást við mjög fjölbreytt verkefni, allt frá því að skoða hönnun og smíði afþreyingartækja, heilsuefling í Húsinu, opna kaffihús, ljósmyndun og skoða kennsluforrit yfir í að rýna í viðhorfskannanir og rannsóknir á ólíku sviði, kortleggja heimsmarkmiðin, þarfagreining á bókasafni, skoðun útivistarsvæða og skráningar hjá Byggðasafninu. Átakið tengist mörgum af starfsstöðvum Hafnarfjarðarbæjar. Það er mín tilfinning að þessi ólíki hópur muni standa sig vel og sinna sínum störfum af áhuga. Þau eru að kynnast og finna taktinn, því krafa er um sjálfstæð vinnubrögð auk þess sem svigrúm er fyrir þau að setja sitt mark á verkefnin. Við hlökkum mikið til að sjá afraksturinn í ágúst þegar þau skila inn verkefnum og kynna þau fyrir okkur,“ segir Ida að lokum.

Þessi umfjöllun er samstarf.