Miklar breytingar eru að verða á bænum okkar eftir því sem tímanum líður, sem er gott, enda þarf bæjarfélag að vaxa og þróast með íbúum sínum. Á Holtinu hefur þegar orðið mikil þétting byggðar, eftir því sem iðnaðarhverfi urðu að íbúahverfum og heldur sú þróun áfram. Nú þegar er verið að deiliskipuleggja svæði kringum Flensborgarhöfn og stutt í að iðnaðarhverfið uppi á Holti verði breytt í íbúabyggð – væntanlega ekki meira en áratugur. Breytt búseta kallar einnig á breyttar áherslur – t.d. eru fleiri nú sem ekki hafa aðgengi að görðum og því verða græn svæði enn mikilvægari en áður var.

Dæmigerð mynd af börnum að leik á túninu.

Nú hafa bæjaryfirvöld opinberað hugmyndir sínar um að breyta grænu svæði sem kallast Óla Run tún í byggingarsvæði, en til þess þarf að fara í aðalskipulagsbreytingu, en skipulagslýsing í þá átt liggur nú frammi hjá bænum. Á fjölmennum íbúafundi, sem haldinn var þann 23.maí s.l.  komu íbúar að háværum mótmælum um þessar breytingar – enda hafa íbúar kallað á það í mörg ár að túnið verði gert að almennilegu útivistarsvæði – svæði þar sem íbúar bæjarins geti komið saman og notið útiverunnar, grillað, kastað frissbí eða allt hitt sem fólki langar að gera utandyra. Því miður hafa bæjaryfirvöld ekki svarað erindum íbúa hvað þetta varðar og nú er ljóst að skipulagsyfirvöld vilja malbika yfir græna svæðið á Holtinu, til þess að byggja þar – þvert á kosningaloforð Sjálfstæðismanna um að á túninu yrði skipulagt útivistarsvæði.

Óla Run tún er merkilegt fyrir þær sakir að þar er opið svæði, með útsýn yfir höfnina en gríðarlegir möguleikar eru á nýtingu þess. Þar mætti t.d. gera ærslabelg, eins og börnin í hverfinu hafa raunar þegar beðið bæjarstjóra um að gera – laga til fótboltavöllinn sem er þar, búa til grill aðstöðu – bara hvaðeina sem gerir bæjarbúum kleift að njóta útivera og samneyti við hvorn annan. Græn svæði fást ekki tilbaka eftir að það hefur verið malbikað á þeim. Þegar hefur verið stofnaður hópur á Facebook um túnið og nýtingu þess – en í honum eru yfir 400 manns.

Ég vil biðja alla áhugasama um að senda inn aðfinnslur við hugmyndir bæjarins um að byggja á Óla Run túni, með því að senda erindi á bæinn, í netfangið hafnarfjordur@hafnarfjordur.is merktar: „Aðalskipulag – Þéttingarsvæði“ – Ekki er verra ef okkur í íbúasamtökum Holtsins væri leyft að fylgjast með, með því að fá afrit í netfangið olaruntun@holtidmitt.is – Verndum grænu svæðin – pláss til að lifa – og búa í Hafnarfirði. Hér er slóð á Facebook hópinn Óla Run tún. 

Þórir Ingvarsson, íbúi í Hafnarfirði.

Forsíðu-drónamynd: Guðmundur Fylkisson, sem einnig skrifaði um svæðið í fyrra. Aðrar myndir frá Þóri.