Húsnæði St. Jósefsspítala átti 93 ára vígsluafmæli daginn sem lífsgæðasetur var formlega opnað þar í liðinni viku. Þetta sögufræga hús mun framvegis hýsa starfsemi fyrirtækja sem byggja á gildum setursins og snúa að heilsu, samfélagi og sköpun. Fimmtán fyrirtæki eru þegar komin með aðstöðu í setrinu og munu þau bjóða upp á fjölbreytta þjónustu, m.a. í anda lýðheilsu. Fjölmenni mætti á opnuna og hlýddi á erindi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, bæjarstjórans Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarminjavarðarins Björns Péturssonar og Evu Michelsen, verkefnastjóra setursins. 

Húsið teiknaði Guðjóni Samúelsson, húsameistari ríkisins, og smíði þess hófst árið 1924. Í anddyriu hefur starfsfólk Byggðasafns Hafnarfjarðar útbúið safn sem minnir á hlýjan hátt á upphaflegt hlutverk  St. Jósefsspítala, þegar St. Jósefssystur starfræktu þar sjúkrahús allt frá árinu 1926. Árið 2011 var St. Jósefsspítala lokað fyrir fullt og allt eftir 85 ára starfsemi og húsið stóð autt og í niðurníslu þangað til árið 2017 þegar Hafnarfjarðarkaupstaður eignaðist það með kaupsamningi við ríkissjóð. Í honum skuldbatt bærinn sig til að reka almannaþjónustu í fasteigninni. Nú þegar eru þangað komnir sálfræðingar, markþjálfar, félagasamtök, fræðslusetur, jóga, leikfélag og heilsuefling fyrir eldri borgara svo fátt eitt sé nefnt. Önnur hæðin er þegar orðin þéttsetin og kominn biðlisti eftir lausum rýmum.

Myndir OBÞ