Björk Jakobsdóttir leikkona, leikskáld, bæjarlistamaður og nú höfundur gefur nú út sína fyrstu skáldsögu, Hetja. Björk segir löngu kominn tíma á að gefa út nýja skáldsögu um íslenska hestinn, þarfasta þjóninn og vin sem hefur verið samofin sagnaheimi Íslendinga frá landnámi. Hún segir að aldrei hafi verið nauðsynlegra að veita börnum aðgang að dýrum en einmitt nú.
Sagan er sögð annars vegar frá sjónarhóli Hetju, 5 vetra meri og hins vegar Bjargar 15 ára unglingsstúlku og eiganda Hetju. Þegar Hetja er tekin úr heimahögunum upphefst æsispennandi leit að henni og Hetja reynir allt hvað hún getur að komast heim. En það getur reynst þrautin þyngri þegar hestur þarf að fara langt frá heimahögum og ekkert nema ókunnug fjöll á alla vegu.
Þroskasaka ungrar merar og unglingsstúlku
Sjálf hefur Björk umgengist hesta allt sitt líf. Fyrst í sveitinni og síðan með sína eigin hesta. „Eins hef ég fararstýrt í hestaferðum með stóð um hálendi Íslands í fjölda ára, bæði í beljandi stormi og brakandi sól. Ég nýti mér þá reynslu í bókinni. Það eru til margar gerðir af hestamennsku. Ég er ekki í keppnis- og myndi eflaust seint vinna landsmót með mína hesta,“ segir Björk og hlær, „en ég er orðin ansi læs á stóðið og hegðun þess.“
Aðspurð segir Björk bókina fyrst og fremst vera spennandi örlaga- og þroskasögu ungrar merar og unglingsstúlku. „En á sama tíma langar mig að veita innsýn í hvernig hestar skynja tilveru sína og hvernig ber að nálgast þá. Þeirra samskipti eru ólík okkar og maður verður að læra hestamálið. Mannverur geta líka verið ólíkar í samskiptum. Björg er til dæmis snertifælin og er greind á einhverfu rófi í mannheimum en er afburðargreind í samskiptum við hesta. Það eru til svo margar mismunandi greindir. Aðalmarkhópurinn eru börn og unglingar (8 ára og eldri), en fullorðnum þykir hún eflaust líka skemmtileg.“

Góð núvitund að umgangast hesta
Björk segir hestamennsku hafa ótal kosti. „Talandi um COVID og einangrun, þennan kvíða sem er að aukast hjá börnum og unglingum – og ég finn það hjá sjálfri mér líka. Það er ekki til meiri nútvitund en að fara í hesthús og kúpla sig frá daglegu amstri. Þarf þarf ekki alltaf að fara á bak eða vera rosa flinkur og eiga flottan hest. Bara klappa mjúkri hestasnoppu, opna heyrúllu og finna lyktina af seinasta sumri í skammdeginu, hleypa út og moka. Þetta er stórkostlegur lúxus í þjóðfélagi sem er að aftengjast þegar kemur að náttúrunni. Það hefur aldrei verið nauðsynlegra að veita börnum aðgang að dýrum, nú þegar þau fara ekki í sveit eins og í gamla daga.“ Foreldrar telji oft að hestamennskan sé of dýr og að börn geti ekki stundað hana nema að fjölskyldan eigi hesta.
„Í dag er hægt að nálgast hestaíþróttina í borg og bæ án þess að barnið eigi hest og það þarf þetta ekki að kosta báða handleggi. Ef fólk langar að kanna þennan kost þá er bara að taka upp síman og hringja í hestafélagið í þínu bæjarfélagi og fá frekari upplýsingar.“ Að umgangast dýr segir Björk að euki víðsýni og umburðarlyndi. „Fyrir mér er ávinningurinn fyrst og fremst andlegur, en þetta er líka heilmikil líkamsþjálfun. Það er alveg eins hægt að stunda hestamennsku eins og handbolta, fótbolta eða fimleika.“ Björk bendir á að hægt sé að nota frístundastyrkinn fyrir hestaíþróttir. „Svo vona ég að bókin mín auki skilning barna og áhuga á okkar stórkostlega hestakyni sem hefur verið órjúfanlegur partur af menningararfi okkar íslendinga frá upphafi.“
Aðsend forsíðumynd: Björk og hesturinn Klettur.