Fulltrúar lögreglustöðvarinnar við Flatahraun hafa á undanförnum tveimur vikum komið við á hafnfirskum veitingastöðum og öldurhúsum til að athuga með hvort sóttvörnum sé framfylgt og segir Sævar Guðmundsson aðalvarðstjóri, í samtali við Hafnfirðing, að hvergi hafi þurft að gera athugasemdir. Staðirnir hafi allir verið til fyrirmyndar.

Eins og víða hefur komið fram í fréttum hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gert átak í eftirliti með sóttvörnum á öldurhúsum og veitingastöðum í Reykjavík og í einhverjum tilfellum hefur þurft að loka stöðum eða bæta sóttvarnir verulega og tryggja betur tveggja metra reglu á milli borða.

Sævar segist hafa skynjað og skilið vel að veitingamenn hafi viljað geta tekið á móti fleiri gestum, sérstaklega á öldurhúsum. „Þar hefur samt einfaldlega bara verið fámennt og góðmennt þegar okkur hefur borið að garði og ekkert til að gera athugasemdir við. Við höfum aukið í þetta eftirlit undanfarnar vikur í ljósi aðstæðna annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og hafnfirskir veitingamenn og vertar eru bara til mikillar fyrirmyndar með sína staði.“

Vel á þriðja tug veitingastaða og öldurhúsa eru í Hafnarfirði.

Mynd/OBÞ