Hafnfirðingarnir og hjónin Paul Ramses Odour og Rosmary Atieno hafa undanfarin 10 ár haldið úti verkefni sem miðar að því að byggja og koma á fót leik- og grunnskóla í þorpinu Got Agulu í Kenía, en þaðan eru þau bæði upprunin. Leikskóli opnaði árið 2012 og grunnskóli þremur árum síðar. Í Got Agulu er mikill áhugi á knattspyrnu og þar hafa 15 drengir æft stíft og áætlað er ferðalag til Íslands í þrjár vikur í sumar. Fjarðarpósturinn hitti hjónin og íslensku undirbúningsnefndina. Þegar hafa safnast rúmar tvær milljónir króna, en þó vantar upp á fjármagn til þess að þessi stóri draumur geti ræst og hópurinn skorar á sem flesta að leggja þessu fallega málefni lið.  

Stór hluti hópsins sem kemur til Íslands.

Íslenskir búningar og íslenski fáninn.

Eftirvæntingin í hópi drengjanna og stemmningin í þorpinu fyrir ferðalagi þeirra er mikil. Enginn þeirra hefur ferðast út fyrir sýslumörkin áður. „Við vildum gjarnan láta draum þeirra rætast og skapa um leið hvatningu fyrir aðra krakka í þorpinu til að taka þátt í starfi íþróttafélagsins sem hefur strax sýnt sig að eykur áhuga þeirra á skólastarfinu og hefur verið mikilvæg viðbót við uppbyggilegt starf í þágu barna og ungmenna á svæðinu,“ segir nefndin. Samtals eru 270 nemendur í skólanum, sem ber nafnið Verslo, þar sem nemendur og kennarar Verslunarskólans hafa stutt veglega við verkefnið.

Hjónin Paul og Rosmary ásamt börnum sínum Rebekku og Fidel Smára og forsetahjónunum á kvöldverði til styrktar hjálparsamtökunum Tears children and youth aid árið 2016.

Vonast eftir vináttuleikjum við FH og Hauka

Íþróttafélagi var komið á fót í þorpinu og vilji var innan Samtaka íslenskra ólympíufara að styðja við framgang þess verkefnis og leita samtarfs við íslensk íþróttafélög. „Þau hafa veitt mikilvægan stuðning, m.a. með því að senda út nauðsynlegan búnað. Síðar kom upp sú hugmynd að sækja um þátttökurétt fyrir eitt af liðunum þeirra á alþjóðlega knattspyrnumótið ReyCup sem haldið er árlega á Íslandi. Hafnarfjarðarbær hefur líka stutt vel við verkefnið og boðið hópnum gistingu í Lækjarskóla og aðra aðstoð. Íþróttafélögin í Hafnarfirði hafa líka stutt við verkefnið og boðið fram aðstoð sína og er meðal annars vonast til að hægt verði að spila vináttuleiki við bæði FH og Hauka fyrir utan hina skipulögðu mótsdagskrá. Það eina sem hefur ekki gengið eins og lagt var upp með er að safna nægilega miklum peningum til að greiða fyrir ferðalag liðsins til Íslands.“ Í samtali hópsins og Fjarðarpóstins kom óvænt fram sú skemmtilega staðreynd að millinafn sonar Pauls og Rosmary, Smári, kemur til vegna dálætis þeirra á íslensku knattspyrnuhetjunni Eiði Smára Guðjohnssyni.

Frá heimsókn Íslendinga til Got Agulu.

Styrktarreikningur fyrir verkefnið er 525-14-402357, kt. 421210-2070. Einnig er velkomið að leggja málefninu lið t.d. með því að útvega klæðnað fyrir drengina 15 og þrjá fullorðna fylgdarmenn sem hentar íslenskum aðstæðum. Íslenski hópurinn er einnig afar móttækilegur fyrir öðrum uppástungum og hugmyndum um samstarf og leiðir til að styrkja málefnið. Hægt er að hafa samband við Gunnar Axel í síma 664-5553 eða Margréti Gauju í síma 664-5551.

Hér ef Facebook síða sem stofnuð var í tengslum við ferðina og söfnunina.

Forsíðumynd/OBÞ: Nefndin, frá vinstri: Gunnar Axel, Margrét Gauja, Paul, Rosmary, Bára Friðriksdóttir, Sigrún Líf Gunnarsdóttir og Guðmundur Rúnar Árnason