Snert hörpu mína, Sönghátíð í Hafnarborg, fer fram 28. júní til 14. júlí í Hafnarborg. Meðal dagsrkára verður frumflutningur á 20 ör-lögum, sönglagaflokkurinn Liederkreis eftir Schumann, fjölskyldutónleikar, fornir hljómar, bel canto raddflugeldasýning, minningartónleikar um Atla Heimi Sveinsson og námskeið fyrir 6 mánaða til 99 ára. 

Nafn hátíðarinnar í ár vísar í eitt vinsælasta lag ástsæla tónskáldsins Atla Heimis Sveinssonar, sem féll frá fyrir skömmu. Hátíðin heiðrar minningu Atla Heimis með lokatónleikum þar sem sex söngvarar flytja úrval sönglaga hans, en tónleikunum lýkur með samsöng flytjenda og áhorfenda.

Á Sönghátíð í Hafnarborg verða í boði alls sjö tónleikar með framúrskarandi söngvurum og hljóðfæraleikurum og margvísleg námskeið fyrir börn og fullorðna – leika sem lærða. Listrænir stjórnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari.

Dagskráin:

28. júní kl.20 flytja nýja söngstjarnan Andri Björn Róbertsson bassabaritón og Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari Söngvasveig (Liederkreis) eftir Robert Schumann og íslensk sönglög, en Andri hefur nýverið sungið í Covent Garden og öðrum af fremstu óperuhúsum Evrópu.

29. júní kl.17 frumflytur Kammerkór Suðurlands, undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, 20 örlög eftir fjölmörg tónskáld og verk eftir Pál á Húsafelli með þátttöku hans á eigin hljóðfæri í tilefni sextugsafmælis listamannsins.

30. júní kl.16.30 verða í boði ókeypis fjölskyldutónleikar Dúó Stemmu þar sem Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari og Steef van Oosterhout slagverksleikari fagna sumrinu með íslenskum þjóðvísum, þulum, ljóðum og hljóðum. 6-12 ára krakkar af námskeiði hátíðarinnar taka undir.

11. júlí kl.20 flytja 15 nemendur á master class námskeiði Kristins Sigmundssonar aríur og sönglög ásamt Hrönn Þráinsdóttur píanóleikara.

12. júlí kl.20 flytur Umbra Ensemble einstakt og persónulegt úrval fornrar tónlistar og þjóðlaga víða úr heiminum. Hljómsveitina skipa: Alexandra Kjeld, kontrabassi og söngur, Arngerður María Árnadóttir, keltnesk harpa, orgel og söngur, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir, barokkfiðla og söngur og Lilja Dögg Gunnarsdóttir, söngur og slagverk.

13. júlí kl.17 flytja Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) sópran og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran efnisskrá með virtúósasöng frá 19. öld eftir meistarana Bellini, Donizetti, Rossini og Verdi. Anna Guðný Guðmundsdóttir leikur á píanó og Francisco Javier Jáuregui leikur á klassískan gítar. Guðrún söng nýverið titilhlutverkið í frumflutningi á spænskri óperu við mikið lof gagnrýnenda.

Lokatónleikarnir 14. júlí kl.17 verða minningartónleikar um Atla Heimi Sveinsson, eitt helsta söngvaskáld Íslands, sem féll frá fyrir skömmu. Tónskáldið heiðra söngvararnir Kristinn Sigmundsson, Hallveig Rúnarsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Alexander Jarl Þorsteinsson og Þórhildur Steinunn Kristinsdóttir (Vox Domini verðlaunahafi) með Francisco Javier Jáuregui gítarleikara og Evu Þyri Hilmarsdóttur píanóleikara.

Þá standa börnunum til boða námskeið fyrir mismunandi aldurshópa, með Krílasöng fyrir 6-18 mánaða með foreldrum, Tónlistarsmiðju fyrir 3-5 ára með foreldrum og Söngsmiðju fyrir 6-12 ára. Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir heldur söngnámskeið fyrir áhugafólk 13-99 ára og Kristinn Sigmundsson Master class námskeið fyrir söngvara og söngnemendur, sem lýkur með opinberum tónleikum.

Listamenn hátíðarinnar koma einnig fram á ókeypis tónleikum utan Hafnarborgar til að færa lifandi tónlist út í samfélagið til þeirra sem komast ekki á tónleika og dveljast á stofnunum.

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu hátíðarinnar www.songhatid.is en miða á tónleika er hægt að nálgast á www.tix.is

Á YouTube síðu hátíðarinnar má sjá viðtöl við íslenska söngvara um söngtækni.
Hafnarfjarðarbær og Tónlistarsjóður eru bakhjarlar Sönghátíðar í Hafnarborg.