Opnun sýninganna Lengi skal manninn reyna og Söngfuglar fór fram í Hafnarborg í gær. Annars vegar er um að ræða yfirlitssýningu á verkum eftir Þorvald Þorsteinsson, þar sem gefur að líta fjölbreytt úrval verka: skúlptúra, innsetningar, málverk og myndbandsverk sem varpa ljósi á þennan fjölhæfa listamann og það hvernig hann vann verk sín í tengslum við samfélagið. Þorvaldur hefði orðið sextugur þann 7. nóvember 2020. Hins vegar er efni sýningar Katrínar Elvarsdóttur sú ríkjandi hefð á Kúbu að halda söngfugla í búrum á eynni því Kúberjar finna til tengsla við fuglana í búrunum þar sem efnahagslegar þrengingar eru almenn regla. Hafnfirðingur var viðstaddur opnunina og smellti af nokkrum myndum.

Fullorðins- og barnsskór Þorvaldar.
Hægindastóll, eða öllu heldur fyrirbeiðnastóll Þorvaldar. Þarna geta gestir farið úr skónum við mottuna og sest niður og einhverjr jafnvel fundið strauma frá Þorvaldi.
Meðal persónulegra muna sem fólk lét Þorvaldi í té og saga hvers munar er á kassanum.

Sýningin Lengi skal manninn reyna var opnuð á afmælisdegi Þorvaldar, sem hefði orðið 61 árs, en hann var afkastamikill listamaður og kennari sem nýtti sér flesta miðla í listsköpun. Auk þess að fást við myndlist samdi hann skáldsögur, leikrit, ljóð og tónlist og varð landsþekktur fyrir Vasaleikhúsið sem flutt var í Ríkisútvarpinu 1991 og síðar sýnt í sjónvarpi. Skáldsaga hans, Skilaboðaskjóðan, sló einnig rækilega í gegn þegar hún kom út árið 1986 og var síðar færð í leikbúning og sýnd í Þjóðleikhúsinu sem söngleikur árið 1993. Fjórar bækur Þorvaldar um Blíðfinn hafa verið þýddar á fjölda tungumála og Borgarleikhúsið setti upp leikrit hans And Björk, Of Course… árið 2002. Hann hélt fjölmargar einkasýningar, jafnt á Íslandi sem erlendis, og tók þátt í alþjóðlegum samsýningum víða um heim.

Eitt af verkum Katrínar.

Söngfuglar Katrínar

Á Kúbu eru miklar líkur á því að stakur söngfugl í búri verði á vegi ferðamanna áður en langt um líður – en rík hefð er fyrir því að halda söngfugla á eynni, sem hluti af menningararfleifð eyjarbúa. Katrín Elvarsdóttir kynntist þessu sjálf á ferðalagi sínu til Kúbu fyrir nokkru síðan en það voru einn eða fleiri fuglar í gluggum flestra íbúðanna sem hún gekk þar framhjá, litlir gleðigjafar í skrautlegum búrum á fáskrúðugum, tómlegum heimilum. Þá kann að vera að Kúbverjar finni til nokkurrar samkenndar með söngfuglunum, sem geta ekki flögrað til og frá. Einangraður einstaklingur finnur til tengsla við fugl sem er fastur í eigin búri. Á svæði þar sem efnahagslegar þrengingar eru almenn regla, frekar en undantekning, er ekki ósennilegt að það að halda söngfugl sé til marks um ákveðinn lúxus, líkt og þessu sé ætlað að gefa í skyn vellystingar með því að breiða yfir bágindi og skort.

Annað verk Katrínar, á jarðhæð Hafnarborgar.

Katrín Elvarsdóttir lauk BFA námi frá Art Institute í Boston árið 1993. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga hérlendis og erlendis, svo sem Leitina að sannleikanum í BERG Contemporary árið 2018, Double Happiness í Gerðarsafni árið 2016, Vanished Summer í Deborah Berke, New York, árið 2014 og Hvergiland í Listasafni Reykjavíkur árið 2010. Þá hafa verk Katrínar verið sýnd á samsýningum víða, þar á meðal á Þöglu vori í Hafnarborg árið 2020. Fjórar bækur hafa áður verið gefnar út með ljósmyndum Katrínar og verður bókin Songbirds, sem kemur út samhliða sýningu hennar í Hafnarborg, sú fimmta. Katrín hefur verið tilnefnd til ýmissa verðlauna eins og EIKON Award árið 2017, Deutsche Börse Photographic Prize árið 2009 og heiðursverðlauna Myndstefs árið 2007.

Stór hópur gesta á öllum aldri mætti á sýninguna og hér eru nokkur dæmi.

Forsíðumynd frá vinstri: Helena Jónsdóttir, ekkja Þorvaldar, Aldís Arnardóttir forstöðumaður Hafnarborgar og Ágústa Kristófersdóttir, safnafræðingur og sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafns Íslands. Myndirnar tók Olga Björt Þórðardóttir