Söfnin í Hafnarfirði opna á ný frá og með deginum í dag þegar varfærnar tilslakanir á gildandi samkomutakmörkunum taka gildi. Grímuskylda er á söfnunum, tveggja metra regla og fjöldatakmörkun miðast við 10 manns. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
Bókasafn Hafnarfjarðar
Bókasafn Hafnarfjarðar verður fyrst um sinn opið frá kl. 13-17 virka daga og frá kl. 11-15 laugardaga. 2. hæð verður lokuð en boðið er upp á pöntunarþjónustu áfram.
Byggðasafn Hafnarfjarðar
Opnunartími safnsins er frá kl. 11-17 alla laugardaga og sunnudaga. Í forsal Pakkhússins er sýning um grásleppukarla og smábátaútgerð í bænum og þá er Beggubúð og Sívertsen komin í jólabúning. Hluti leikfangasýningar á þriðju hæð verður áfram lokaður vegna sameiginlegra snertiflata. Aðgangur er ókeypis.
Hafnarborg
Opnunartími safnsins er frá kl. 12 – 17 alla daga nema lokað á þriðjudögum. Í Sverrissal í Hafnarborg stendur yfir yfirlitssýning á verkum hafnfirska listamannsins og gullsmiðsins Gunnars Hjaltasonar (1920-1999), “Það sem fyrir augu ber”, með sérstaka áherslu á grafík verk hans enda fjölmörg slík verk varðveitt í safni Hafnarborgar. Safnbúð Hafnarborgar er staðsett á jarðhæð safnsins. Þar má finna fallegar og áhugaverðar bækur, veggspjöld, kort og fleira. Aðgangur að safni er ókeypis.