Erla Björg Hafsteinsdóttir er heimsmeistari í flokki 40 ára og eldri í badminton. Þórunn Eva Guðbjargar Thapa hitti Erlu, sem hefur fjórum sinnum verið tilnefnd sem badmintonkona Hafnarfjarðar. Þá er Erla á leið í sitt fyrsta A-landsliðsverkefni ásamt því að hún stefnir á að taka þátt á Evrópumóti öldunga síðar á þessu ári.
Ferill Erlu byrjaði þegar hún var í Vogaskóla í Reykjavík. Fulltrúar Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur (TBR) komu í skólann til hennar og gáfu krökkunum spaða. Félögin á landinu hafa enn þennan sið og mörg börn hafa komið að æfa með félaginu í kjölfarið. Erla byrjaði því sinn feril ung að árum innan veggja TBR og var þar til átján ára aldurs þegar hún fluttist til Danmerkur til að vinna og æfa badminton. Erla var í Danmörku í tvö ár en fluttist þá til Skotlands og æfði þar í eitt ár. Árið 2001 kom Erla aftur heim til Íslands. Þá var hún var orðin verulega þreytt, með þráðlát meiðsli í öxl, búin að fara í speglun og niðurstaðan sú að ekkert var hægt að gera. „Á þessum tíma var kominn leiði í mig og þreyta og ákvað ég því að hætta og segja þetta gott. Ég var pínu búin að tapa gleðinni af því að spila.“ Hún henti öllu nema badminton skónum sínum. „Ég veit ekki af hverju ég henti ekki skónum,“ segir Erla.

Fyrsti Íslandsmeistaratitill BH
Í september 2008, stuttu eftir að Erla eignaðist sitt annað barn, hafði Anna Lilja, einn af þjálfurum Badmintonfélags Hafnarfjarðar (BH) samband við hana til að athuga hvort hún hefði ekki áhuga á að koma í íþróttahúsið við Strandgötu og prófa æfingu. Erla sló til. „ Ég er ekki að grínast þegar ég segi ykkur, og við grínumst með það enn þann daginn í dag, að ég hitti ekki einu sinni kúluna“. Það er því magnað að heyra Erlu svo segja að hún hafi orðið íslandsmeistari í tvíliðaleik kvenna með Tinnu Helgadóttur (TBR) vorið 2009. Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill Erlu í meistaraflokki, leikurinn var spilaður í fyrrnefndu íþróttahúsi og eignaðist BH þennan dag í fyrsta skipti Íslandsmeistara í meistaraflokki í badminton og það á 50 ára afmæli félagsins. „Þetta var mögulega svolítið skrifað í skýin og mómentið þarna var pínu geggjað,“ segir Erla. Á þessum tíu árum hefur Erla unnið 4 Íslandsmeistaratitla fyrir BH og núna seinast á 60 ára afmæli félagsins.
„Ég er búin að vera í badminton á fullu síðan haustið 2008, fyrir utan þegar ég eignaðist þriðja barnið mitt, en þá tók ég smá pásu. Ég hef eftir það aldrei fengið leiða eða fundist þetta vera kvöð. Ég gæti reyndar aldrei notið þess að spila badminton og æft af svona miklum krafti nema að hafa stuðning frá betri helmingnum mínum. Þar er ég heppin. Hann hefur allt stutt mig og hvatt mig áfram sem er ómetanlegt.“

Þrjá íþróttahallir og 1500 keppendur
Heimsmeistaramótið 2019 var stærsta badmintonmót sem haldið hefur verið og umfangið því gríðarlega stórt. „Eitthvað sem við Íslendingar þekkjum bara ekki,“ segir Erla. Til að gera lesendum betur grein fyrir stærðinni á mótinu þá voru þrjár íþróttahallir inni í þessari einu stóru höll sem mótið var spilað í og keppendur 1500 talsins. „Það voru spilaðir einn til tveir leikir á hverjum degi og þó svo að það sé kannski ekki mikið þá er mjög andlega krefjandi að gíra sig upp dag eftir dag og eiga alltaf góða leiki. En það er þetta sem þessi mót snúast um, að hafa hausinn í lagi og halda fókus. Það er því geggjuð tilfinning að hafa unnið mótið. Þegar ég hugsa tilbaka þá er þetta eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert.“
Erla segist aldrei hafa getað komist svona langt nema að hafa góðan þjálfara sem trúir á hana og hvetur hana áfram, frábæra æfingafélaga og frábært badmintonfélag sem styður við bakið á henni. Erla er svo þakklát fyrir það að þessi titill er að gera góða hluti ekki bara fyrir hana heldur einnig fyrir BH. Það hefur orðið mikil aukning innan félagsins seinustu ár. „BH er að gera frábæra hluti bæði í badminton- og borðtennisdeildinni. Við erum ekki eingöngu með keppnishópa sem vilja æfa mikið og keppa á öllum mótum, heldur reynum við líka að ná til þeirra sem hafa gaman af hreyfingu og góðum félagsskap, þannig kviknar oft líka síðar meiri áhugi. Það að krakkarnir fái að sjá að það er hægt að að láta drauma sína rætast gerir mikið fyrir mig sem íþróttakonu.“
Viðtal: Þórunn Eva Thapa
Myndir í eigu Erlu