Fyrir áramót var samþykkt í bæjarstjórn deiliskipulag fyrir fyrsta reitinn í hverfinu í Hraun-vestur. Nú strax eftir áramót þarf að draga það til baka vegna alvarlegra athugasemda Skipulagsstofnunar við skipulagið, sem margar voru samhljóða ábendingum og bókunum okkar í minnihlutanum. Því miður var ekki á þær hlustað og ljóst er að miklar tafir verða á uppbyggingu íbúða á svæðinu. Vinnubrögð meirihlutans í þessu máli einkenndust af óðagoti og óvandvirkni, eins og fram kemur í bréfi Skipulagsstofnunar.

Þetta er ekki eina dæmið um að kastað sé til höndum við skipulagsvinnuna. Skemmst er að minnast áætlana sem birtar voru í skýrslu starfshóps um deiliskipulag miðbæjarins. Þar var gert ráð fyrir óhóflegu byggingarmagni og háhýsi á uppfyllingu sem skyggði á útsýni. Eftir hörð mótmæli íbúa var það allt dregið til baka. Starfshópurinn hefur ekki enn skilað niðurstöðum þó hann hafi fundað 14 sinnum um tillögu að aðferðarfræði við áframhaldandi vinnu við skipulag miðbæjarins.

Íbúasamráð forsenda vandaðrar vinnu 

Skipulagsmál eru vettvangur samráðs og samvinnu íbúa og annarra hagsmunaaðila. Þau fjalla um í hvernig bæ við viljum búa. Og þar verður að vanda til verka og láta hvorki skammtímasjónarmið né hagsmunapot rugla sig í ríminu. Langvarandi stefnuleysi og klúður meirihlutans í skipulagsmálum síðustu ár hefur leitt til þess að mun minna er byggt af íbúðarhúsnæði en í nágrannasveitarfélögunum. Hér skortir alla framtíðarsýn og forgangsröðun í skipulags- og byggingamálum.

Nú kvartar meirihlutinn sáran undan gagnrýni okkar í minnihlutanum og að við stöndum í vegi fyrir uppbyggingu. Þar hefur minnihlutinn einmitt staðið vaktina og forðað okkur frá dýrkeyptum skipulagslysum. Við gerum kröfu um vönduð og fagleg vinnubrögð, þar sem allir sitja við sama borð, að fólk sé upplýst og geti látið skoðanir sínar í ljós. Annað eru óvönduð vinnubrögð. Vinnum saman að mótun bæjarins okkar og látum verkin tala.

Stefán Már Gunnlaugsson

Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði