Skemmtistöðum og krám á höfuðborgarsvæðinu verður lokað frá deginum í dag og fram á mánudag. Heilbrigðisráðherra féllst á tillögu sóttvarnalæknis um tímabundna lokun skemmtistaða og kráa í því skyni að sporna við útbreiðslu COVID-19. Reglugerð heilbrigðisráðherra þess efnis hefur þegar tekið gildi.

Lokunin tekur til kráa og skemmtistaða í Reykjavík, Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Kjósarhreppi og á Seltjarnarnesi. 

Tillögur sóttvarnalæknis, sem fram koma á vef Stjórnarráðsins, voru eftirfarandi:

1. Frá og með 18. til og með 21. september 2020 verði krám og skemmtistöðum í umdæmi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu lokað. Að þeim tíma liðnum verði opnun staðanna endurmetin með hliðsjón af þróun hópsýkingarinnar. 

2. Forráðamenn skóla og fyrirtækja verði hvattir til að skerpa á sýkingavörnum í samræmi við fyrirliggjandi leiðbeiningar. 

3. Áfram verði hvatt til verndunar viðkvæmra hópa 

4. Einstaklingar verði hvattir til notkunar andlitsgríma samkvæmt fyrirliggjandi leiðbeiningum í aðstæðum þar sem ekki er hægt að viðhafa eins metra nándarreglu og/eða loftgæði eru slæm.

5. Einstaklingar verði sérstaklega hvattir til að viðhafa einstaklingsbundnar sýkingavarnir í sínu daglega lífi. 

6. Einstaklingar með sjúkdómseinkenni sem benda til COVID-19 haldi sig til hlés og leiti eftir sýnatöku hjá heilsugæslunni. 

7. Ekki er mælt með breytingu á fjöldatakmörunum eða eins metra nándarreglu að þessu sinni.