Forritarar framtíðarinnar hafa nú lokið úthlutun styrkja fyrir þetta ár og hlutu 29 grunnskólar styrki sem nema 9 milljónum króna. 1,5 milljón rann til námskeiða innan skólanna en 7,5 milljónir til kaupa á smærri tækjum í forritunar og tæknikennslu ásamt úthlutun á notuðum tölvubúnaði. Skarðshlíðarskóli í Hafnarfirði er einn þeirra skóla sem fékk styrk og mun styrkurinn verða nýttur til kaupa á Lego WeDo með það að markmiði að kenna nemendum undirstöðuatriði í forritun og auka tæknilæsi þeirra. Þetta kemur fram í frétt á síðu Hafnarfjarðarbæjar.
Ljóst er að þörfin á stuðningi á þessu sviði er mikil en í ár var sótt um styrki sem í heild nema yfir 40 milljónum króna og ekki var hægt að veita öllum styrk sem sóttu um. Mestur áhugi var fyrir því að fá styrki til kaupa á minni tækjum en einnig er mikið sótt um styrki fyrir námskeið og notaðan tölvubúnað. Hægt var að sækja um í eftirfarandi flokkum:
- Námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu
- Tölvubúnað; notaðar borðvélar, skjáir, mýs og lyklaborð sem eru yfirfarnar af kerfisstjórum hollvina FF
- Styrk til námsefnisgerðar í forritunar- og tæknikennslu
- Styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu (ekki tölvur)
Skólarnir sem fengu styrk í ár eru: Álftanesskóli, Bíldudalsskóli, Dalvíkurskóli, Egilsstaðaskóli, Flataskóli, Flúðaskóli, Foldaskóli, Giljaskóli, Grenivíkurskóli, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar, Gunnskóli Grundarfjarðar, Grunnskólinn í Stykkishólmi, Háaleitisskóli, Hlíðaskóli, Höfðaskóli, Kársnesskóli, Landakotsskóli, Laugarnesskóli, Myllubakkaskóli, Norðlingaskóli, Njarðvíkurskóli, Sjálandsskóli, Skarðshlíðarskóli, Táknafjarðarskóli, Valsárskóli, Varmahlíðarskóli, Vesturbæjarskóli, Víkurskóli og Vogaskóli.
Forritarar framtíðarinnar er sjóður sem stofnaður var 2014 með þann tilgang að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins í ár eru RB, Landsbankinn, CCP, Össur, Íslandsbanki og Webmo design. Vitað er að mikil þörf er á sjóðnum til að tengja saman viðskiptalífið, menntastofnanir og aðra hagsmunaaðila með það að leiðarljósi að sem flest ungmenni öðlist þá grunnhæfni sem til þarf til að verða forritarar framtíðarinnar.