Riddarinn, skákklúbbur eldri borgara á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu, á 20 ára afmæli í ár.  Af því tilefni var efnt til sérstaks hátíðar- og afmælismóts í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, með góðum verðlaunum og hátíðarkaffi.    

Síðan haustið 1998 hafa eldri skákmenn víðs vegar að af höfuðborgarsvæðinu mætt  reglulega til tafls í Vonarhöfn, skáksal Riddarans. Skákfundirnir eru haldnir á miðvikudögum kl. 13 -17 allan ársins hring. Því lætur nærri að mótin séu nú orðin um 1000, umferðirnar um 11.000 og skákirnar vel á annað hundrað þúsund talsins.

Riddarabragur.

Það var Bjarni Linnet, póstmeistari, skákmeistari Hafnarfjarðar fyrr á tíð, sem sumarið 1998 leitaði ásamt tveimur félögum sínum, þeim Grími Ársælssyni, trillukarli og Sigurberg H. Elentínussyni, verkfræðingi, til séra Gunnþórs Þ. Ingasonar, sóknarprests kirkjunnar og grennslaðist fyrir um það hvort þeir, ásamt nokkrum öðrum eldri skákmönnum, gætu fengið inni í Safnaðarheimilinu til vikulegra skákæfinga. Það reyndist auðsótt mál enda Bjarni sjálfur í sóknar formaður sóknarnefndar. Alla tíð síðan hefur klúbburinn notið velvildar kirkjunnar manna, sértaklega séra Gunnþórs, sem verið hefur formlegur verndari hans alla tíð síðan enda þótt hann sé ekki lengur þjónandi þar.

Þá um haustið hófu hinir öldnu seggir að koma þar saman og stofnuðu skákklúbb sem kenndur var við Bjarna Riddara. Brátt fór þó að bætast í skáksveitina og ekki óalgengt að 14-18 eldri skákmenn víðsvegar að af höfuðborgarsvæðinu mæti þar vikulega til etja kappi. Tefldar eru stuttar 10 mínútna skákir, 11 umferðir, jafnframt því njóta góðrar samveru, kaffi og kruðerís í boði kirkjunnar. Hófleg þátttökugjöld eru lögð í púkk til áhaldakaupa, verðlauna oþh., en einnig til færa styrktarsjóði kirkjunnar fjárstyrk til guðsþakka um Jól.

Stofnendur Riddarans.

Segja má að á skákfundi Riddarans mæti menn til að tefla sér til hugarhægðar en hvorki til lofs né frægðar“ eins og stundum er sagt.  Enginn er þó annars bróðir í leik enda hart barist og varist meðan aldurinn færist enn frekar yfir. Svona hefur þetta gengið árum saman jafnframt því sem margir þessara öldnu skákgarpa leita í aðrar sóknir líka til að þjóna skákþörf sinni. Það var  Grímur Ársælsson sem leiddi starfið fyrstu 10 árin en við fráfall hans 2008 tók Einar S. Einarsson, við keflinu. Guðfinnur R. Kjartansson, hefur sinnt skákstjórastarfinu af kostgæfni árum saman eða síðan tölvupörun var tekin upp skömmu eftir aldamót.

Sr. Gunnþór Ingason, verndari Riddarans og Erkiriddari.

Skákmeistari klúbbsins hefur verið útnefndur árlega miðað við sigursæld, sem fær nafn sitt greypt gullnu letri á Riddarastyttu klúbbsins. Hin síðari árin hafa einnig verið haldin sérstök mót og árlegar mótaraðir, eins og  Kappteflið um Skákseglið“ til heiðurs og virðingar við látna félaga og  Kappteflið um Skákhörpuna“, tileinkað skákæskunni – verðandi meisturum framtíðarinnar.

Þetta hefur ásamt öðru orðið til að auka veg Riddarans fyrir utan skákhátíðina „Æskan og Ellin“  – Strandbergsmótið í skák, þar sem kynslóðirnar mætast, aldnir skákmenn 6o ára og eldri og ungmenni 15 ára og yngri. Þessi viðburður var fyrst haldinn 2004 sem liður í  90 ára afmælishátíðarhöldum Hafnarfjarðarkirkju. Svo vel tókst til að ákveðið var að gera mótið að árlegum viðburði. Eftir að það óx að umfangi og vinsældum var brugðið á það ráð fyrir 6 árum að taka upp samstarf við Taflfélag Reykjavíkur um mótshaldið til að tryggja það í sessi til framtíðar. Þá stóð klúbburinn fyrir fjölmennu Viðeyjarskákmóti árið 2010 sem athygli vakti og eins Skálholtsmóti áriði 2013, tileinkað Lewis taflmönnunum sögufrægu, sem taldir eru íslenskrar ættar, gerðir af Margréti hinnar högu, prestfrú þar um 1290.

Nokkrir valinkunnir félagar hafa verið heiðraðir við sérstök tilefni og slegnir til Riddara í bókstaflegri merkingu og af konunglegum sið. Fyrstur Ársæll Júlíusson, aldursforseti á þeim tíma, síðan Fjölnir Stefánsson, tónskáld, og svo voru stofnendurnir þrír slegnir til heiðursriddara, líka Haukur Sveinsson, Björn Víkingur Þórðarson, sem nú eru allir eru látnir.  Ennfremur þeir Páll G. Jónsson; Guðfinnur R. Kjartansson og Sverrir Gunnarsson, núverandi aldurforseti.(91). Þá hefur Sr. Gunnþór, verndari Riddarans hlotið þennan heiður sem og núverandi formaður, sem sleginn var til Erkiriddara.

Vel mætt.                                                                      

Eins og gefur að skilja á stöðug endurnýjun sér stað í hópi eldri borgara. Þessu hefur skákklúbbur Riddarans ekki farið varhluta af á liðnum árum.  Hátt á annan tug góðra og eftirminnilegra félaga hafa fallið í valinn og aðrir helst úr lestinni af ýmsum ástæðum.  Eðli málsins samkvæmt hafa yngri skákkappar fyllt hin djúpu skörð eftir því sem þeir hafa náð aldri til, sem bætir úr skák.

Félagar Riddarans meta það mikils að eiga góða og friðsæla heimahöfn í Strandbergi. Þó kröftugir orgeltónar berist stundum að eyrum trufla þeir lítt taflmennsku skákgestanna, heldur efla huga þeirra og einbeittan baráttu- og sigurvilja enn frekar til dáða og andans verka.

 

Texti: Einar S.  

Myndir aðsendar.