Rétt tæpur fjórðungur framhaldsskólanema veipar daglega. Þeim hefur fjölgað um rúmlega helming á tveimur árum samkvæmt nýjum niðurstöðum Rannsókna og greiningar sem fjallað var um í kvöldfréttum RÚV fyrir skömmu. Við leituðum álits á þessari þróun hjá fulltrúum þeirra sem hafa með málefni og velferð ungs fólks að gera, þeim Stefáni Má Gunnlaugssyni, formanni Foreldraráðs Hafnarfjarðarbæjar og Guðmundi Fylkissyni lögreglumanni.

Stefán Már Gunnlaugsson, formaður Foreldraráðs Hafnarfjarðar, segir mikið áhyggjuefni hve stór hluti unglinga og ungs fólks notar rafrettur og hve sú þróun hefur verið hröð. „Það kemur ekki á óvart enda hafa tóbaksframleiðendur markaðsett þessa vöruna einkum fyrir ungt fólk. Rafrettur hjálpa vissulega fólki að hætta að reykja í einhverjum tilvikum, en þær innihalda skaðleg efni og eru ávanbindandi. Ungt fólk sem notar rafrettur er mun líklegra að byrja reykja eða leiðast jafnvel út í aðra neyslu. Einnig er það áhyggjuefni að engin lög eða reglur eru til um rafrettur. Það er mjög brýnt að setja skýrar reglur sem takmarka aðgengi barna og unglinga að rafrettum, einnig að stórefla forvarnir og fræðslu um skaðsemi veipsins.“

Söluauglýsing á lokaðri Facebook síðu.

Dæmigerð hylki með cannabis vökva sem seld eru á Facebook.

Kannabis í rafrettum

Á undanförnum árum hefur kannabis-vökvi verið þróaður í rafrettur og m.a. seldur á lokuðum síðum á Facebook. Þessi vökvi gefur sömu áhrif og þegar kannabis er reykt. Guðmundur segir þetta slæma þróun og minnir á að enginn viti fyrr en við fyrsta sopa, reyk eða inntöku á einhverju efni hvort hann muni ánetjast því. „Fyrir suma er það því miður of seint og ég hef séð í mínu starfi afreksíþróttakrakka fara mjög hratt fram af brúninni og ráða ekki við neysluna. Krakkar sem jafnvel hafa verið að fara að líta til atvinnumennsku í sinni grein. Ungmenni sem hafa byrjað mjög ung, t.d. í kannabisneyslu, koma svo inn nokkrum árum síðar og eru þá orðnir sjúklingar og þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda. Stundum þarf að nauðungarvista þau og í framhaldi svipta þau sjálfræði. Það er sorglegt að sjá hvaða áhrif þessi efni geta haft á einstaklinga, bæði líkamlega og andlega.“