Síðustu tvö ár hafa markað tíma umbreytinga í lífi Kristborgar Bóelar Steindórsdóttur sem siðir og venjur hafa ekki farið varhluta af. Hún er sjálfstæð fjögurra barna móðir, íbúi við Breiðvang og dagskrárgerðarkona hjá Sagafilm og Sjónvarpi Símans. Að eigin sögn tók hana töluverðan tíma að upphugsa hvernig hún ætti að svara þeirri einföldu spurningu sem lögð var fyrir hana; hvort hún héldi í einhverjar sérstakar aðventuhefðir. Niðurstaðan er afar falleg, heiðarleg og hugvekjandi og við gefum Kristborgu Bóel orðið:
Ég hef alla tíð verið mikið jólabarn. Haustið er minn eftirlætis tími, sem svo rennur saman í aðventuna sem markar upphaf jólahátíðarinnar. Hátíðar ljóss og friðar. Eða hvað?
Það var fyrir tveimur árum sem vaxandi jólakvíði minn sem einstæður heimilisrekandi náði hámarki. Þar sem ég gekk inn í þriðju verslunina þann daginn til þess að sækja hluti sem „þurfti“ til þess að hægt væri að hringja jólin inn, með peningum sem ég átti ekki, þá bara gerðist eitthvað. Helltist yfir mig angistarkast – samblanda af dimmum, köldum og óþægilegum tilfinningum. Ég áttaði mig á því að öll gleði og tilhlökkun í aðdraganda jólanna hafði vikið fyrir kvíða og botnlausri streitu.
Á dögunum las ég bakþanka Kolbeins Marteinssonar í Fréttablaðinu og langt er síðan ég hef samsamað mig innihaldi greinar jafn vel. Blaðamaður skrifar: „Jólin eiga sér dekkri hlið sem eru endalaus markaðsskilaboð í aðdraganda þeirra. Skilaboð um að okkur vanti ennþá meira í ár en í fyrra og að eina leiðin til að sýna ást sé með dýrum gjöfum. Niðurstaðan verður oft streita, óþarfa vesen og ofneysla. En verstur er óþarfinn. Allar þessar gjafir sem eru gefnar af því bara og enda eftir opnun í Sorpu eða ruslinu síðar. Allt eru þetta þættir sem hafa slæm áhrif á umhverfið, fjárhag okkar og eru afleiðing vel smurðrar markaðsvélar sem endurtekur í sífellu að það sem við höfum sé ekki nóg. Það er keyrð upp sturluð neysla á öllu þegar kemur að hátíð ljóss og friðar.“
Þetta og akkúrat þetta. Ofneysla og óþarfi. Sú þrjú orð sem kjarna hugmyndafræði nútíma jóla. Ég er sek. Þetta er svona og gerir ekkert nema að vaxa með hverju árinu.
Ég ákvað þarna og akkúrat þarna að ég ætlaði ekki að taka þátt í þessu lengur. Ég hafði ekki efni á þessu, hafði hvorki peningaráð né orku til þess að standa í þessu öllu saman. Þarna var kominn tímapunktur endurskoðunar minnar jólahátíðar.
Síðustu ár hafði ég smá dregið úr gjafakaupum, steinhætt að þrífa sérstaklega, eða baka smákökusortir sem ekki eru borðaðar. Sjö ára sonur minn telur spariföt afkvæmi djöfulsins og fyrir hvern er ég að kaupa á hann skyrtu og bindi? Í það minnsta ekki hann. Ekki misskilja mig. Ég er mikið jólabarn og ekki frænka Grinch. En þetta er ekki það sem ég vil. Þetta er ekki það sem veitir mér gleði, ljós og frið.
Í fyrra ræddi ég svo við fólkið í kringum mig sem ég hafði skipst á gjöfum við gegnum tíðina. Vinkonur, börn vinkvenna, frændur og frænkur. Allt er þetta fólk sem skiptir mig miklu máli og stendur hjarta mínu nálægt. Ég samdi um jólagjafalaust framhald.

Eftir standa sjö gjafir. Börnin mín fjögur, tengdadóttir, mamma og afi. Sjö gjafir eru hellingur. Ég get ekki lýst léttinum sem ég hef fundið fyrir síðan ég réðst í niðurskurðinn. Að vera stikkfrí um að hendast um bæinn í leit að einhverju bara til þess að gefa eitthvað. Eitthvað sem kannski aldrei nýtist. Að sama skapi hef ég meira rými til þess að kortleggja hvað það er sem myndi helst nýtast og gleðja mína allra nánustu.
Bara við þetta náði ég að minnka streitustuðul í aðdraganda jólanna um 2/3. Eftir stendur að mestu það sem veitir mér gleði. Einfaldasta svarið er því kannski; einfaldleiki. Eftir uppstokkun leitast ég við að skapa hefðir sem miða að því sem ég vil að jólin mín standi fyrir, kærleika og frið. Ég baka ekki nema okkur langi til þess. Ég elti ekki lengur alla jólamarkaði, opinn dag í skógræktinni til þess að fella tré eða Baggalút. Hins vegar, ef okkur langar að gera eitthvað af þessu þann daginn, þá gerum við það.
Fyrsta sunnudag aðventu bauð ég reyndar góðri vinkonu minni og hennar fjölskyldu í kaffi. Nefndum uppákomuna „pínulitlu-jólin“. Piparkökur og randalín sem Bónus sá um að baka fyrir okkur. Malt&appelsín, heitt kakó og mandarínur. Kósýföt skilyrði. Úr varð afslöppuð samvera þar sem allir hlóðu kærleiksbatteríin. Ræddum að þetta gætum við hugsað okkur sem hefð.
Þá hef ég tekið kvöldgöngutúr á Laugarveginum á aðventunni með elsta drengnum mínum undanfarin tvö ár. Gæðastund. Röltum í rólegheitunum, kíkjum í búðir og fáum okkur kakó. Um það kvöld þykir mér vænt um og hlakka til allt árið. Á það stefni ég í ár og hver veit nema sá næst elsti geti sótt um aðgöngu í þá ferð.
Þannig er það nú. Mín aðventa snýst því um tilraun til þess að njóta fremur en að þjóta. Njóta með þeim og í þeim aðstæðum sem næra mig, ekki tæra.
Kristborg Bóel Steindórsdóttir