Á tímum Covid19 hefur reynt duglega á fjölmennan hóp sem skipar framvarðasveit í menntamálum hér í Hafnarfirði. Þriðja bylgja smita og sóttvarnaaðgerða stendur nú sem hæst. Grunnskólar hafa ekki þurft að loka en starfsfólk skiptist í hólf á kaffistofum eftir námsstigum og foreldrar mega ekki fara inn í skólana. Við ræddum við fulltrúa allra þriggja skólastiganna í Lækjarskóla, sem rifjuðu upp helstu áskoranir í lausnamiðuðu skólastarfi og hvaða ótrúlega jákvæðu áhrif það hefur haft. Það eru þau Hulda Björnsdóttir, Ásbjörn Friðriksson og Tinna Ósk Þorvaldsdóttir. 

Síða heimaskóla Lækjarskóla, sem auðvelt er að finna sem undirsíðu skólans.

Könnun var gerð meðal kennara í Lækjarskóla eftir að foreldrasamtölum lauk fyrir skömmu, en þau fóru fram með gjörbreyttu sniði, vegna covid19. Þeir kennarar sem svöruðu könnuninni voru sammála um að þessi gerð samtala fékk nemendur til að taka meiri ábyrgð og sjálfstraust þeirra efldist. Viðmælendur Hafnfirðings taka undir þetta og segjast hafa orðið vör við ýmis önnur jákvæð áhrif breyttra áherslna, bæði í vor og um þessar mundir. 

Margt jákvætt við það óhefðbundna

Hulda kennir 2. bekk og segir nemendur hafa mætt ótrúlega hugaða í námssamtölin, án forráðamanna, í fyrsta sinn á skólagöngunni. „Við fengum yndislega aðstoð hjá starfsfólki Lækjarsels með að senda þau á réttum tíma til okkar og svo hringdu forráðamenn í okkur á Facetime eða „speaker“, ýmist að heiman eða úr vinnunni. Þetta gekk alveg með eindæmum vel.“ Þó svo að fyrirkomulagið hafi verið óhefðbundið var margt jákvætt við það, en það er nokkuð ljóst að námssamtölin hefðu ekki gengið svona vel nema með mikilli skipulagningu að hálfu starfsfólks skólans og foreldra.

„Það var svo gaman að sjá hvað þau voru örugg en mörg þeirra klesstu sér upp við mig að spenningi við að sjá mömmu og pabba á skjánum eða heyra í þeim í símanum. Margskonar skemmtilegar uppákomur komu á óvart en aðalmálið var gefandi og gott samstarf allra sem komu að,“ segir Hulda. Hún viðurkennir að ástandið hafi verið einkar erfitt s.l. vor, þegar ekið var með námsefni heim til nemenda sem komust ekki í skólann, það hengt á hurðarhúna, bílflautur þeyttar og kallast á í gegnum opna glugga. „Við söknuðum þeirra svo mikið en finnum eftir aukin samskipti við foreldra á þessum tímum, hversu allir eru reiðubúnir að takast á við þessar krefjandi aðstæður sem við búum við í dag, reynslunni ríkari. Það er ákveðin auðmýkt og þakklæti fyrir það sem við þó höfum og getum gert.“

Áskoranir nemenda á heimaskólasíðunni tengdust einnig heilsunni, sem er mikilvægust á svona tímum.

Náði dýrmætu spjalli með hverjum nemanda

Ásbjörn kennir stærðfræði í 7. til 10. bekk. Hann segir eftirminnilegustu áskoranirnar á tímum Covid19 hafa verið foreldraviðtölin, en þau hafi þó gengið mjög vel. „Það voru nánast engin tæknileg vandamál. Nemendur mættu til okkar og svo notuðum við bara Google Meet, þar sem foreldrar tóku þátt með því að smella á hlekk sem veitti þeim aðgang þegar þeirra tími var kominn. Ég vil taka fram að foreldrarnir eiga hrós skilið fyrir sinn hlut og hvað þeir tóku vel í þetta og sýndu engin merki um stress.“ Nemendurnir hafi mætt einir í skólann og Ásbjörn náði spjalli með hverjum og einum í nokkrar mínútur áður en foreldrarnir komu inn í samtalið.

„Nemandinn stýrði samtalinu út frá eigin forsendum og í daglegu starfi kennara er oft erfitt að gefa sér tíma til að spjalla við hvern og einn nemanda, í viðurvist 30-40 annarra andlita. Þarna gafst gott tækifæri til þess, svo að þetta fyrirkomulag er bara alls ekki svo galið yfirleitt.“ Ásbirni fannst erfiðast í vor þegar aðeins mátti hitta umsjónarnemendur, þrátt fyrir að kenna miklu fleirum. „Það þurfti að útbúa kennslumyndbönd, ítarlegar upplýsingar og treysta á að foreldrar gætu hjálpað til. Reyndar voru margir nemendur sem nýttu þennan tíma vel og höfðu kannski dálítið gott af því að hafa ekki stanslaust aðgengi að kennara. Fín æfing fyrir þau og óvæntar vangaveltur sem komu frá þeim í kjölfarið. Það þyrfti að skapa oftar slíkar aðstæður fyrir nemendur, án Covid19. Láta þau taka ábyrgð og fylgja áætlun. Þá verður stökkið í framhaldsskólann eflaust ekki eins mikið.“

Skjáskot úr myndbandinu með nemendum syngjandi lag eftir Daða og Gagnamagnið.

Bjuggu til tónlistarmyndband 

Tinna kennir 5. bekk en kenndi í vor á spjaldtölvur, tölvur og 10. bekkingum fjármálalæsi, auk þess að sjá um Mentor forritið. Hún segir ástandið hafa aukið notkun spjaldtölva mjög mikið, sem og fjarfundabúnaðar og Google Classroom. „Í vor var ég í stjórnendarýminu sem mætti á undan öllu öðru starfsfólki og fór heim eftir að aðrir voru farnir. Ég aðstoðaði m.a. kennara við að ná tökum á Google Meet og þegar allir voru með það á hreinu hafði ég minna að gera og og bjó til heimaskóla – í formi heimasíðu, fyrir öll námsstig. Núna er þessi síða til og hægt að nota ef við þurfum að skipta yfir í heimakennslu.“

Tinna bætir við að ekki hafi endilega þurft að finna upp hjólið og ýmislegt hafi verið nýtt sem áður var til og aðrir höfðu gert. „Mikilli þekkingu var deilt á milli skóla í Hafnarfirði og líka á milli sveitarfélaga. Við vorum og erum öll í sama hernum í sama stríðinu. Allir til staðar til að hjálpa á mismunandi hátt.“ Eftirminnilegast finnst henni þó myndband sem hún, skólastjóri og tónmenntakennarinn fengu fjölda nemenda til að taka þátt í, með því að senda myndskeið af sér syngja lag með Daða og Gagnamagninu. „Við vorum öll hvert á sínum stað en úr varð virkilega skemmtileg samvinna og þátttakan kom á óvart. Svo var gaman að vita til þess að nemendur tóku upp á því að nýta sér fjartæknina og hjálpast að við heimalærdóminn.“

Mynd/OBÞ  Frá vinstri: Hulda Björnsdóttir, Ásbjörn Friðriksson og Tinna Ósk Þorvaldsdóttir. 

Þessi umfjöllun er samstarf.