Sigríður Kristinsdóttir, fyrrum bæjarlögmaður Hafnarfjarðar og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs bæjarins, hefur verið ráðin í embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Hún fékk skipunarbréfið afhent frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sl. fimmtudag.

Alls bárust sjö umsóknir um embættið í haust, en umsóknarfrestur var til og með 1. október. Sigríður lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1989 og hefur frá útskrift sinnt margvíslegum störfum hjá opinberum aðilum og á einkamarkaði. Sigríður varð bæjarlögmaður Hafnarfjarðar 2015 og frá 2016 hefur hún jafnframt gegnt starfi sviðstjóra stjórnsýslusviðs Hafnarfjarðarkaupstaðar og verið staðgengill bæjarstjóra.

Á myndinni af Facebook síðu Áslaugar Örnu, afhendir hún Sigríði skipunarbréfið.

Hafnarfjarðarbær auglýsti eftir umsóknum um starf sviðsstjóra stjórnsýslusviðs í helgarblaði Fréttablaðsins. Myndin er skjáskot úr blaðinu.