Nú fer hver að verða síðastur að sækja um örstyrk vegna verkefna á Björtum dögum – umsóknarfrestur um allt að 100.000 kr. vegna verkefna sem fara fram meðan á hátíðinni stendur er til og með 27. mars. Andri Ómarsson, viðburðastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ, segist í stuttu samtali við Fjarðarpóstinn hafa þegar fengið upplýsingar um fjölmarga spennandi viðburði og því sé ekki seinna vænna en að senda vinum og vandamönnum heimboð í Hafnarfjörð 24.-28. apríl. 

„Það er opið fyrir innsendingar dagskráratriða til 7. apríl. Við stefnum á að gefa dagskrána út strax í vikunni á eftir og því er mikilvægt að upplýsingar um dagskráratriði berist til okkar sem fyrst. Meðfylgjandi eru grófar dagskrárlínur en ýmislegt fleira er enn í mótun,“ segir Andri.

Um er að ræða þessa daga: 
Miðvikudagur 24. apríl – Leikskólalist um allan bæ, þriðjubekkingar syngja inn sumarið, afhending menningarstyrkja, bæjarlistamaður Hafnarfjarðar útnefndur og tónlistarhátíðin HEIMA í heimahúsum

Fimmtudagur 25. apríl – Sumardagurinn fyrsti, víðavangshlaup, skrúðganga og fjölskyldudagskrá í umsjá skátafélagsins Hraunbúa

Föstudagur 26. apríl – Gakktu í bæinn! Vinnustofur listamanna, verslanir og söfn verða með opið fram á kvöld

Laugardagur 27. apríl og sunnudagur 28. apríl – Íþróttahreyfingin í Hafnarfirði fyrir kynningum á hinum ýmsu íþróttagreinum í heilsubænum Hafnarfirði og einstaklingar, félagasamtök og aðrar menningarstofnanir standa fyrir alls kyns viðburðum um allan bæ

Símanúmerið hjá Andra er 664-5779 og hann vill endilega heyra frá þeim sem eru í þessum hugleiðingum.