Heiðrún Ingólfsdóttir og Þorsteinn Darri Ingólfsson, nemendur í Setbergsskóla, sem sigruðu í sínum flokki í lestrarkeppni grunnskóla Samróms í ár. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og forsetafrúin Eliza Reid, afhentu verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í fyrradag.
Heiðrún og Þorteinn Darri tóku stolt á móti verðlaununum, Sphero Spark vélmennum, en vélmennin tengja saman leik og forritunarkennslu og eru hönnuð til að ýta undir forvitni, sköpun og nýjar uppgötvanir. Keppnin var á vegum Samróms, samstarfsverkefnis um máltækni sem Almannarómur, Deloitte, Háskólinn í Reykjavík og Nýsköpunarsjóður námsmanna standa að.

Heiðrún og Þorsteinn Darri tóku, líkt og nemendur í 136 öðrum skólum, þátt í Lestrarkeppni grunnskólanna hjá Samrómi í sínum flokki fyrir fjölda innlesinna setninga í Samróm dagana 18. – 25. janúar. Í gögnum frá orðabanka Samróms kemur fram að á meðan keppninni stóð voru lesnar um 790 þúsund setningar frá 6172 manns.
Markmiðið er að þróa nauðsynlega innviði fyrir hugbúnað sem skilur og talar íslensku. Í grunnskólakeppninni var raddsýnum safnað og gagnast þau við að skipa íslensku máli verðugan sess í stafrænum heimi. Smáraskóli, Grenivíkurskóli og Setbergsskóli sigruðu hver í sínum stærðarflokki, en einnig voru veitt verðlaun fyrir framúrskarandi árangur til Höfðaskóla, Gerðaskóla og Myllubakkaskóla.
Það var enn annar Hafnfirðingur viðstaddur þessa verðlaunaafhendingu, því skólastjóri Öldutúnsskóla, Valdimar Víðisson, var beðinn um að taka við verðlaunum fyrir hönd Grenivíkurskóla, en þar var hann sjálfur skólastjóri um tíma. Valdimar svaraði kallinu og mætti á Bessastaði, að sjálfsögðu með grímu, en vegna mikils stærðar- og aldursmunar hans og barnanna, var hann vsl. beðinn um að vera ekki með á hópmyndinni. Valdimar greindi sjálfur skemmtilega frá þessu á Facebook síðu sinni. Vinur hans hins vegar bætti honum inn á myndina, til gamans. Sjá seinni myndina hér fyrir neðan.


Myndir frá forsetaembættinu.