Hjá fyrirtækinu Ísco ehf við Steinhellu 17b starfa sérfræðingar á sviði þjónustu og ráðgjafar er varðar matvælaumbúðir og ýmsar lausnir tengdar slíku. Þeir hafa góð tengsl við birgja víða um heim til að útvega það sem hentar hverju sinni. Efnavörur, vinnuvernd og öryggisvörur eru einnig meðal þess sem Ísco hefur umboð fyrir og í 680 fm húsnæði þeirra er sýningarsalur og hægt er að kaupa allt frá vörum í stykkjatali og upp í brettavís. Eigendurnir eru þrír; bræðurnir Björn Bergmann og Þórður Björnssynir og Daði Hreinsson. Auk þeirra koma tveir til þrír aðrir að daglegum rekstri. Hafnfirðingur kíkti í heimsókn.


Ísco ehf. var stofnað árið 2015 og byrjaði í 90 fm húsnæði og færðu sig svo yfir í 370 fm í júní í fyrra. Um jólin þurfti fyrirtækið að stækka enn meira við sig og er núna í 680 fm. Eigendurnir segja að það veiti ekki af plássinu og í raun bíði þeir eftir enn stærra plássi. „Við byrjuðum reksturinn í þjónustu á sérhæfðum tækjum, vélbúnaði og efnavörum fyrir sundlaugar og önnur mannvirki. Bættum svo við okkur sviði matvælaumbúða og umbúðalausna fyrir verslanir til pökkunar og bréfpoka af öllum gerðum. Í júní keyptum við smávöruhluta sem tilheyrir veitingageiranum af snillingunum hjá Samhentum og Kassagerðinni vegna breytinga hjá þeim. Við erum mjög ánægðir hér í Hellnahverfinu. Það er í raun stutt í allar átti sem við þurfum að fara og því hentar staðsetningin vel,“ segir Þórður, en hann og Björn bróðir hans eru ekta Gaflarar, langt aftur í ættir. Þriðji eigandinn, Daði Hreinsson, stofnaði og rak fyrirtækið Kemi sem margir kannast eflaust við. „Daði kemur inn í reksturinn með efnaþekkinguna. Er algjör snillingur í því vegna fyrri reynslu. Bjössi veit mest um einnota vörur, því hann er búinn að vera í þeim bransa í 25 ár. Það kemur því enginn að tómum kofa hér. Sjálfur sé ég um innkaup og sölu. Við skiptum þessu bróðurlega á milli okkar,“ bætir Þórður við og þeir hlæja báðir.



Frá stökum einingum upp í heilu brettin
Þegar gengið er inn í fyrirtækið blasir við hlýlegur sýningarsalur með sýnishornum af því helsta sem fyrirtækið býður upp á, sem er allt frá partýpinnum, umbúðum, bréfpokum og stóran hluta af pizzakassa markaðnum á landinu upp í öryggisvörur, sótthreinsiefni, vélbúnað og heilu róbótana sem þrífa sundlaugar. „Við erum því bæði með einna breiðasta vöruúrvali í okkar áherslum og, að við teljum, eina slíka fyrirtækið þar sem hægt er að fá í litlu magni niður í stakar einingar. Vanalega eru seldir heilu kassarnir eða brettin með þessum vörum í einu,“ segir Björn.




Covid ástandið opnaði nýja möguleika
Skrifstofa bræðranna fer ekki framhjá neinum sem inn koma, því fagurgrænn skógarbakgrunnur er á veggjum þar, enda er sérstök áhersla lögð á umhverfisvænar vörur. „Við leitumst líka við að skipta við fyrirtæki með umhverfisvæna stefnu. Það skiptir okkur máli og við reynum að beina fólki inn á þá braut eins og hægt er,“ segir Þórður og bætir við að þeir flytji inn frá Frakklandi, Englandi, Þýskalandi, Svíþjóð og láti framleiða í Tyrklandi og Svíþjóð eftir óskum og bjóði því upp á heildarlausnir fyrir smærri sem stærri fyrirtæki. „Við sjáum bara lausnir. Ef það er eitthvað sérhæft, þá er um að gera að athuga málið. Við finnum pottþétt úr úr því. Og svo sendum við frítt heim á höfuðborgarsvæðinu ef keypt er fyrir meira en 15 þúsund, en annars erum við með sendingar á flutningamiðstöðvar 1 – 2 sinnum á dag,“ segir Þórður. Covid-ástandið gaf þeim líka mikla möguleika vegna þess að eigendur veitingahúsa fóru að hugsa hlutina öðruvísi og bjóða upp á að sækja eða senda heim. „Um jólin var bilað að gera hérna og líka á Þorranum. Ég held að þau muni halda áfram með þá valmöguleika,“ segir hann að endingu og minnir á að það er ávallt heitt á könnunni hjá þeim og allir velkomnir að kíkja við.



Myndir/OBÞ
Þessi umfjöllun er kynning.