Rósa Karen Borgþórsdóttir, safnvörður á Byggðasafni Hafnarfjarðar, segist einhvern veginn aldrei hafa spáð í hvaða aðventuáherslur hafi fylgt henni fram á fullorðinsár. Fljótt á litið segist hún að ekki sé um neitt sérstakt að ræða sem hún geri þá annað en að undirbúa jólin sjálf, nema kannski að skera út laufabrauð með samsettu fjölskyldunni sinni og svo smákökubakstur. Aðventan sé annars heldur látlaus en alltaf notalegur tími.

„Það var t.d. aldrei bakað laufabrauð á mínu uppvaxtarheimili, ég hefði nú alveg verið til í það því það er skemmtilegt að vinna það í góðum hópi. Ég notaði tækifærið þegar krakkarnir voru í skóla, en það var hefð skólanum þeirra að koma saman og skera út laufabrauð,“ segir Rósa og bætir við að auðvitað hafi verið bakaðar smákökur á aðventunni bæði á hennar uppvaxtarárum og svo á hennar heimili síðar. „Það voru aðallega smákökurnar hennar mömmu sem ég bakaði með aðstoð krakkanna. Þetta voru engiferkökur, kókostoppar og súkkulaðismákökur með appelsínuhýði. Mjög góðar.“ Nú sé það reyndar svo að smákökur eru ekki eins vinsælar og áður. Ikea selji tilbúið engiferkökudeig, alveg eins og mamma hennar gerði svo það spari tíma.

Rósa Karen ásamt móður sinni og systrum á aðfangadagskvöld á 8. áratug síðustu aldar. Rósa er svo þakklát fyrir að faðir hennar var iðinn við myndatökur og því eru til ótal margar dýrmætar myndir eins og þessi.

„Annars þá ólst ég upp í frekar látlausri aðventu. Foreldrar mínir voru af þeirri kynslóð að það var lítið um föndur og dúllerí. Þegar börnin mín urðu nógu gömul þá föndruðum við músastiga úr krepé-pappír og ýmislegt sem var í boði en við bjuggum þá í Danmörku. Nú eru börnin okkar orðin stór og hafa engan áhuga á músastigum og föndri,“ segir Rósa og brosir. Hún segist minnast aðfangadagskvölds sem stærstu samverustundarinnar, rúsínunnar í pylsuendanum. „Þannig var að þegar við systurnar vorum orðnar nógu fullorðnar þá var það svoleiðis eftir að hafa borðað léttreykta lambahrygginn sem mamma eldaði best, þá voru þau, mamma og pabbi, send inn í stofu til að slaka á eftir allan undirbúninginn við matseldina og við systurnar gengum frá á meðan. Svo sameinuðustum við í stofunni til að taka upp pakkana. Þessa hefð tóku mín börn til sín og nú fáum við hjónin að sitja í sófanum og dást að jólatrénu á meðan tekið er til eldhúsinu eftir jólamatinn,“ segir Rósa alsæl.

Forsíðumynd/OBÞ