Hafnfirðingurinn Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, og Árni Vilhjálmsson, leikmaður Breiðabliks, eignuðust son í fyrradag, 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu. Parið tilkynnti gleðifregnina á samfélagsmiðlum með orðunum: „Þegar allt breyttist til hins betra!“ Móður og barni heilsast vel.

Hraustlegur og fallegur drengur. Mynd/af Instagram síðu föðurins Árna.

Sjá fleiri myndir frá fæðingardeildinni hér sem Árni birti á Instagram

Sara Björk er uppalin hjá Knattspyrnufélaginu Haukum og Hafnfirðingur tók viðtal við stolta foreldra hennar, Gunnar Svavarsson og Guðrúnu Valdísi Arnardóttur, eftir að Sara hafði lyft bikar Íþróttamanns ársins í fyrra sinn. Gunnar og Guðrún Valdís eru eflaust enn stoltari í dag í nýju hlutverkunum.

Gunnar og Guðrún Valdís. Mynd/OBÞ

Átta mánuðir eru síðan að Sara spilaði síðast fótboltaleik með liði sínu Lyon gegn Bröndby í Meistaradeild Evrópu. Hún fékk eftirminnilega fullt hús sem Íþróttamaður ársins 2020 og það var í annað sinn sem hún hlaut þá nafnbót. Hún var einnig fyrst kvenna til þess að hljóta hana í tvígang.

Hafnfirðingur óskar öllum hlutaðeigandi innilega til hamingju með bestu óskum um bjarta framtíð.