KSÍ tilkynnti í fyrradag að Hafnfirðingarnir Sara Björk Gunnarsdóttir og Gylfi Þór Sigurðsson væru knattspyrnufólk ársins 2020. Þetta er sjötta árið í röð hjá Söru Björk og níunda hjá Gylfa Þór.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, er nnattspyrnukona ársins í sjöunda skipti og sjötta árið í röð. Sara Björk bætti landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur og hefur nú leikið alls 136 leiki fyrir A-landslið Íslands. Hún átti stóran þátt í að Ísland tryggði sæti sitt á Evrópumótinu 2022. Þá gekk Sara Björk til liðs við Frakklands- og Evrópumeistarana Lyon þar sem hún skoraði í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Gylfi Þór Sigurðsson hefur hlotið nafnbótina knattspyrnumaður árins frá árinu 2012. Gylfi Þór leikur með Everton í ensku úrvalsdeildinni og hefur verið leikmaður liðsins frá 2017. Hann lék fjóra leiki með íslenska karlalandsliðinu á árinu og skoraði í þeim þrjú mörk, en þau komu öll í umspili Íslands fyrir EM 2020. Hann hefur því skorað 25 mörk með landsliðinu og þarf aðeins að skora tvö í viðbót til að bæta metið.

Myndir/Af Söru Björk: sjáskot af RÚV. Af Gylfa Þór: Facebook síða hans.