Hafnfirska knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir er íþróttamaður ársins 2020 að mati Samtaka íþróttafréttamanna. Þetta er í annað sinn sem Sara hlýtur nafnbótina og er hún fyrst kvenna til þess að hljóta nafnbótina í tvígang. Sara fékk fullt hús stiga, eða 600 stig.

Sara Björk er uppalin hjá Knattspyrnufélaginu Haukum, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, þýskur meistari og bikarmeistari með Wolfsburg og Evrópumeistari með franska stórliðinu Lyon.

Hér sést Sara Björk lyfta bikarnum, sem einnig er hafnfirskur.

Vegna samkomutakmarkanna var hófið sýnt á RÚV og íþróttafólkið var í beinni við skjái heima hjá sér, mörg hver erlendis. Þetta var í 65. sinn sem Samtök íþróttafréttamanna kjósa íþróttamann ársins. Í öðru sætinu var körfuboltamaðurinn Martin Hermannsson með 356 stig en í þriðja sætinu var hafnfirski landsliðsfyrirliðinn í handbolta, Aron Pálmarsson, með 266 stig. Sundkappinn Anton Sveinn MacKee, sem í kvöld var kjörinn Íþróttakarl Hafnarfjarðar, hlaut 4. sætið með 209 stig.

Fjórir Hafnfirðingar voru meðal 10 efstu í kjöri besta íþróttafólks ársins 2020. Þá var Arnar Þór Viðarsson, knattspyrnuþjálfari 21 árs landsliðs Íslands, tilnefndur sem þjálfari ársins.

Fjórir Hafnfirðingar voru meðal 10 efstu í kjörinu.

Myndir/skjáskot af útsendingu RÚV.