Sóttvarnalæknir hefur sent heilbrigðisráðherra tillögu að samkomubanni, í fyrsta skipti í lýðveldissögunni. Markmiðið að hemja útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Bannið tekur gildi á miðnætti 15. mars næstkomandi og gildir í fjórar vikur.

Samkomubannið gengur út á að takmarka samkomur, með 100 manns eða fleiri, frá og með á miðnætti 15. mars. Gert er ráð fyrir að háskólar og skólar framhaldsstigi verði hætt. Grunn- og leikskólar starfa áfram með takmörkunum, en þar verður lögð áhersla á takmarkaða stærð á hópum, t.d. að hámarki 20 börn í bekk.

Bannið tekur einnig til verslana. Ekki verður heimilt að hafa fleiri en hundrað manns þar inni í einu og uppfylla verður aðra þætti. Allir viðburðir með 100 manns eða fleiri verða óheimilir. Farið er fram á tveggja metra bil á milli fólks. Samkomubannið á jafnt við um íþróttaviðburði og aðrar samkomur. Á stöðum þar sem fólk kemur saman, en innan við hundrað, gilda viðmið um að tveir metrar séu á milli fólks. Þar eru önnur viðmið um að stærð hópa verði takmörkuð og tryggt að eins rúmt verði um börnin og hægt er.

Þær forvarnaaðferðir og ráðstafanir sem gerð hafa verið hingað til, s.s. greina fljótt, setja í sóttkví er talið hafa fyrirbyggt mörg smit. Lögð er áhersla á að verja viðkvæma hópa. Þetta er gert til að tryggja að heilbrigðiskerfið standist álag.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði m.a.: „Við erum á fordæmalausum tímum sem kallar á fordæmalausar aðgerðir, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum.“ Aðferðirnar sem beitt hafi verið; að greina fólk fljótt, einangra sjúka og beita sóttkví með mjög markvissum hætti megi telja að hafi þegar komið í veg fyrir fjölmörg smit.

Nánari útlistanir á samkomubanninu verða opinberaðar síðar í dag.

Mynd/skjáskot af vef RÚV