Fyrir nokkru óskaði Hafnarfjarðarbær eftir tilboðum bæði í lög- og samningsbundnar tryggingar og aðrar tryggingar sveitarfélagsins og tengdra aðila. Tilboð voru opnuð föstudaginn 4. desember 2020 og reyndist Vátryggingarfélag Íslands hf. (VÍS) með lægsta tilboðið.  Þrír aðilar skiluðu inn tilboði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Í lok árs 2020, nánar tiltekið miðvikudaginn 30. desember, skrifuðu bæjarstjóri Hafnarfjarðar Rósa Guðbjartsdóttir og Reynir Leósson forstöðumaður fyrirtækjasviðs hjá VÍS undir samning til þriggja ára um vátryggingaviðskipti. Samningurinn gildir frá og með 1. janúar 2021 til og með 31. desember 2023 með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum í eitt ár í senn. Þannig mun VÍS á tímabilinu 2021-2023 vátryggja hagsmuni Hafnarfjarðarbæjar og tengdra aðila. Tengdir aðilar eru hér Húsnæðisskrifstofa Hafnarfjarðar, Hafnarfjarðarhöfn, Hafnarborg, Vatnsveita Hafnarfjarðar, Skarðshlíð íbúðarfélag hses og Heimilin íbúðarfélag hses. VÍS hefur því frá og með 1. janúar 2021 séð um alla tjónaþjónustu við og fyrir hönd þessara aðila og á þjónustan jafnt við gagnvart starfsfólki, stofnunum og viðskiptavinum sem og hvort sem kröfur falli undir sjálfsábyrgð eða ekki. Samningsaðilar skuldbinda sig jafnframt til að hafa náið forvarnarsamstarf á samningstímanum og mun VÍS veita Hafnarfjarðarbæ og tengdum aðilum forvarnarþjónustu, þeim að kostnaðarlausu.  

Samningurinn var lagður fram til endanlegrar kynningar og samþykktar í bæjarráði Hafnarfjarðar í gær, fimmtudaginn 28. janúar, en bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 05.11.2021 að fara í útboð á tryggingum fyrir Hafnarfjarðarbæ og vísaði til vinnu á fjármálasviði.