Fyrr í sumar stóðu sjálfboðaliðar Rauða krossins og hælisleitendur í Hafnarfirði í sameiningu fyrir hátíðarhöldum að Strandgötu 24. Um var að ræða opið hús fyrir fjölskyldur, s.k. Family House, þar sem börn hælisleitenda gátu leikið við hvert annað og fullorðna fólkið slakað á saman. Fjarðarpósturinn kíkti við á þessum fallega viðburði, þar sem hlýleiki og vinátta voru allsráðandi.
Sjálfboðaliðar kappkosta að skipuleggja eitthvað á þessari hátíð, sérstaklega fyrir börnin, s.s. leiki, föndur, spil o.þ.h. Á hverjum viðburði eldar svo einhver úr hópi hælisleitenda, yfirleitt rétt frá heimalandi þeirra. Hátíðin, sem haldin var í júní, kallast Eid og markar lok Ramadan föstunnar. Félagsstarf hælisleitenda er sjálfboðaliðarekið verkefni sem miðar að því að draga úr félagslegri einangrun umsækjenda um alþjóðlega vernd, vega á móti neikvæðum afleiðingum umsóknarferlisins og gera dvöl þeirra hér á landi bærilegri. Undir hatti félagsstarfsins er rekinn fjöldi verkefna sem öll miða að því að ná til ólíkra hópa innan samfélags hælisleitenda. Sjálfboðaliðaþátttaka og þátttaka hælisleitendanna sjálfra í skipulagi og framkvæmd verkefnisins er grundvöllur félagsstarfsins, enda valdeflandi fyrir báða hópa. Sjálfboðaliðar eru fulltrúar almennings og sjálfboðaliðaöflun og -umsýsla mikilvægur þáttur í málsvarastarfi Rauða krossins fyrir hælisleitendur.
Myndir: OBÞ