Söfnun á Karolinafund fyrir endurbótum á húsnæði Kaldársels er á lokametrunum og aðeins 16 dagar eftir. 80% hafa safnast af fjárhæðinni og stjórn Kaldársels hvetur alla sem mögulega geta að styrkja, allt frá 1500 krónum og þau eru þakklát fyrir hvert einasta framlag. Skálinn í Kaldárseli uppfyllir ekki nýjustu kröfur um öryggi í brunavörnum. Því hefur verið gerð áætlun í samstarfi við brunahönnuð og slökkviliðið um umbætur á skálanum þannig að hægt sé að tryggja öryggi þeirra sem dvelja á staðnum og um leið bæta aðgengi fyrir hreyfihamlaða til muna.

Hlekkur á söfnunina er hér og einnig er hægt að leggja inn á reikning 515-14-404800, kt. 480883-0209.

Í 95 ár hafa börn komið í sumarbúðir í Kaldárseli. Þar hafa þau fengið dýrmæt tækifæri til að rækta líkama, sál og anda.
Nú er brýn þörf á endurbótum á skálanum okkar. Í austurhluta hans voru komnar alvarlegar rakaskemmdir og mikill kuldi í húsinu.
Framkvæmdin felst í að endurnýja glugga og hurðir, bæta einangrun, og hitakerfi. Samhliða eru útbúin fjögur ný sex til sjö manna herbergi fyrir dvalargesti og eitt starfsmannaherbergi í rými sem áður var fatahengi, 20 manna svefnsalur og geymsla. Mikilvægar endurbætur á brunavörnum verða gerðar og aðgengi fyrir hreyfihamlaða bætt til muna.

Teikning af söfnunars´íðunni.

Verkið er umfangsmeira en gert var ráð fyrir upphaflega. Þar má helst nefna að rífa þurfti gömlu svalirnar til að byggja nýjar lengri svalir sem nýtast sem örugg flóttaleið fyrir öll rými á efrihæðinni.

Mynd af söfnunarsíðunni.

Þörfin leynir sér ekki

Skálinn í Kaldárseli uppfyllir ekki nýjustu kröfur um öryggi í brunavörnum. Því hefur verið gerð áætlun í samstarfi við brunahönnuð og slökkviliðið um umbætur á skálanum þannig að hægt sé að tryggja öryggi þeirra sem dvelja á staðnum og um leið bæta aðgengi fyrir hreyfihamlaða til muna. Þessar endurbætur á nýja skálanum eru fyrsta skrefið í þeirri vinnu. Auk þess mun bætt einangrun og gólfhitun í stað rafmagnsofna og blásara halda jafnari hita og verður meira jafnvægi í orkunotkun og þar með lækkar kostnaður við kyndingu á skálanum.

Mikið unnið í sjálfboðavinnu

Til þess að sumabúðastarfið geti farið fram á sér stað mikil sjálfboðavinna. Stjórn Kaldársels vinnur allt sitt starf í sjálfboðavinnu og þess fyrir utan er góður hópur fólks sem hleypur til og aðstoðar þegar kallið kemur. Mikið af vinnu framkvæmdarinnar hefur verið unnin í sjálfboðavinnu.