Einn grunnskóli og sjö leikskólar hafa lokið við innleiðingu þróunarverkefnisins Snemmtæk íhlutun hvað varðar mál og læsi og þrír leikskólar eru í innleiðingarferli. Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur á mennta- og lýðheilsusviði Hafnarfjarðarbæjar, hefur leitt þetta þróunarverkefni um árabil í nánu samstarfi við skólastjórnendur og tengiliði innan skólanna.
„Ef byrjað er nógu snemma að vinna eftir aðferðum snemmtækrar íhlutunar er hægt að draga úr og jafnvel koma í veg fyrir námsörðugleika. Leikskóli er fyrsta skólastig barns. Snemmtæk íhlutun felur í sér að í kjölfar greininga, athugana og skimana á alltaf að setja af stað íhlutun í kjölfarið. Einnig á að vísa börnunum í viðeigandi úrræði eftir þörfum. Með auknum aldri barnanna, án inngrips með réttum úrræðum, verða vandamál þeirra oft stærri og mun erfiðara að mæta þörfum þeirra,“ segir Ásthildur, sem hefur mikinn áhuga á tengslum máls og lestrar ásamt því að veita íhlutun við hæfi eins snemma og hægt er.

Vilja mæta öllum börnum með frávik í málþroska
Hún kom til starfa hjá Hafnarfjarðarbæ fyrir 11 árum og hefur m.a. leitt þróunarverkefnið innan bæjarins. „Ég vildi koma aukinni þekkingu inn í skólakerfið um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar, þróun í málþroska og kynna verkfæri til árangurs til að mæta öllum börnum með frávik í málþroska þannig að þau nái hámarksárangri hvað varðar mál og lestur. Í kjölfarið varð til þetta verkefni. Í því er lögð áhersla á að efla mannauðinn sem er til staðar í skólunum og styrkja samvinnu á milli skóla, fagstétta og stofnana.“
Hluti af þróunarverkefninu sé að vinna með sérstakan handbókarramma en þó ávallt áhersla á að sérkenni hvers leikskóla komi skýrt fram, auk fræðslu og samvinnu allra sem taka þátt í verkefninu og að virkja foreldra til þátttöku. Unnið sé út frá aðgerðaráætlunsem hver skóli útfæri. „Rannsóknir sýna að markvissar aðgerðir í skólastarfi sem að byggja á aðferðum snemmtækrar íhlutunar skila árangri. Mér finnst erfitt að hugsa til þeirra barna þar sem hægt hefði verið að grípa fyrr inn í með viðeigandi aðstoð. Hins vegar hefur á undanförnum árum orðið vitundarvakning hvað þetta varðar,“ segir Ásthildur og bendir á að samvinna við heilsugæslustöðvarnar skipti miklu máli. „Við finnum ung börn, sem eru í áhættu vegna m.a. málþroskafrávika, í gegnum reglubundnar skimanir á heilsugæslunni. Í tímans rás hefur verið of mikið um að bíða og sjá til í stað snemmtækrar íhlutunar.“

Leikskóli er fyrsta skólastigið og menntun kennaranna mikilvæg
Árangur þróunarverkefnisins komi m.a. fram í aukinni valdeflingu meðal starfsfólks skólanna og vísbendingar séu um minni þörf fyrir greiningar. „Þetta verkefni verður hluti af verklagi Brúarinnar (samþætt þjónusta bæjarins til að auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra) og stuðlar að því að veita markvissa og stigskipta þjónustu fyrir öll leik- og grunnskólabörn og fjölskyldur þeirra.“ Mikilvægt sé að í leikskóla sé lagður mikilvægur grunnur að öllu námi barna og því skiptir menntun leikskólakennara miklu máli en jafnframt að virkja allt starfsfólk leikskólanna til þátttöku í starfinu. „Með innleiðingu á þróunarverkefninu er gert ráð fyrir að börnin komi betur undirbúin til að takast á við nám í fyrsta bekk í grunnskóla.“


Handbók leikskólans góð fyrirmynd
Leikskólar í Hafnarfirði sem þegar hafa unnið að innleiðingu á verkefninu eru Norðurberg, Bjarkalundur, Álfaberg, Álfasteinn, Hlíðarberg, Hörðuvellir og Smáralundur. Auk þess eru þrír leikskólar í innleiðingarferli; Hlíðarendi, Hraunvallaleikskóli og Vesturkot. Fyrsti grunnskólinn til að innleiða sambærilegt þróunarverkefni er Skarðshlíðarskóli. „Hver leikskóli lýkur þróunarverkefninu með því að gefa út Handbók leikskólans, til að samhæfa fagvinnu innbyrðis og festa vinnubrögð sem byggja á gagnreyndum aðferðum. Bækurnar eru góðar fyrirmyndir fyrir aðra skóla. Einnig verður mikil áhersla lögð á áframhaldandi samvinnu, endurskoðun á þróunarverkefninu og kynningu á því fyrir foreldra og annað fagfólk.“
Myndir/OBÞ
Þessi umfjöllun er samstarf.