Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2018 var lagður fram í bæjarráði í dag. Fjárhagsstaða Hafnarfjarðarbæjar heldur áfram að styrkjast þrátt fyrir miklar fjárfestingar á árinu og óhjákvæmilegar lántökur. Rekstrarafgangur ársins fyrir A og B hluta bæjarsjóðs nam 1.129 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 799 milljónum króna afgangi. Veltufé frá rekstri var 3.863 milljónir króna eða 14,4% af heildartekjum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ. 

„Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar sýnir ábyrga fjármálastjórn og trausta fjárhagsstöðu. Skuldaviðmið sveitarfélagsins heldur áfram að lækka og rekstrarniðurstöður heilt yfir eru jákvæðar og yfir áætlunum“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, um niðurstöður ársreikningsins sem kynntur var í dag. Rekstrarafgangur ársins fyrir A og B hluta bæjarsjóðs nam 1.129 milljónum króna. Rekstrarniðurstaða ársins fyrir A hluta var jákvæð um 490 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 213 milljóna króna afgangi. Heildartekjur ársins voru 926 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir eða 3,6% yfir áætlun.

Fjárfesting í mikilvægum innviðum og þjónustu

Fjárfestingar á árinu 2018 námu 5.289 milljónum króna. Meðal helstu framkvæmda voru bygging nýs skóla í Skarðshlíð fyrir 2.061 milljón króna, bygging hjúkrunarheimilis fyrir 850 milljónir króna og framkvæmdir vegna íþróttamannvirkja að Ásvöllum, Kaplakrika og við Keili fyrir alls um 696 milljónir króna. Kaupverð íbúða í félagslegt húsnæðiskerfi sveitarfélagsins nam 457 milljónum króna og endurbætur á St. Jósefsspítala, um 113 milljónum króna. Um einn milljarður króna fóru í framkvæmdir við gatnagerð. Tekin voru ný lán á árinu vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð um 2 milljarðar króna og um 1,4 milljarður króna vegna byggingar hjúkrunarheimilis. Auk þess var tekið 500 milljóna króna lán vegna fjárfestinga Húsnæðisskrifstofu á leiguíbúðum í félagslega kerfið. Greiðslur langtímaskulda námu alls 1,6 milljarði króna eða um 200 milljónir króna umfram afborganir samkvæmt lánasamningum.

„Rekstur Hafnarfjarðarbæjar er agaður og borin er virðing fyrir skattfé bæjarbúa. Fjölgun íbúa kallar á nauðsynlega uppbyggingu innviða samhliða mikilvægu viðhaldi á öllum eignum bæjarins. Skammt er síðan Hafnarfjarðarbær var undir sérstöku eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en nú er öldin önnur. Þennan góða árangur má þakka stjórnendum bæjarins og starfsmönnum. Með ábyrgum rekstri undanfarinna ára eru allar undirstöður rekstrar bæjarfélagsins í góðu lagi og bærinn hefur burði til að takast á við þær áskoranir sem kunna að felast í þeirri kælingu efnahagslífsins sem nú blasir við. Við horfum því bjartsýn fram á veginn,“ segir Rósa.

Skatttekjur voru 236 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Framlög jöfnunarsjóðs voru 270 milljónir króna umfram áætlun og aðrar tekjur voru 420 milljónir króna umfram áætlun en þar af nam tekjufærsla vegna seldra lóða um 65 milljónum króna. Kostnaður var um 416 milljónir króna umfram áætlun sem er 1,8% frávik. Fjármagnsliðir voru um 153 milljónum krónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstur málaflokka var í takti við fjárhagsáætlun en helstu frávik má rekja til hækkunar vistunargjalda, aukins kostnaðar í málefnum fatlaðs fólks og aðkeyptrar kennsluþjónustu. Heildareignir í lok árs námu samtals 55.971 milljón króna og jukust um 4.798 milljónir milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 43.191 milljónum króna og hækkuðu um 3.004 milljónir króna á milli ára. Langtímaskuldir jukust um 2.944 milljónir króna vegna fyrrgreindrar lántöku, lífeyrisskuldbinding hækkaði um 525 milljónir króna en skammtímaskuldir lækkuðu um 763 milljónir króna.

Íbúar Hafnarfjarðar voru 29.791 þann 1. desember 2018 samanborið við 29.360 árið áður sem er íbúafjölgun um 431 eða 1,5%.