Íbúar við Hrauntungu hér í bæ byggðu og reistu í gærkvöldi vegg í sömu hæð og hús sem stendur til að byggja á lóð við götuna. Þannig vildu þeir mótmæla breytingum á deiliskipulagi sem samþykktar voru á fundi skipulags- og byggingaráðs 5. maí sl. Forsprakkarnir, Jóhann Óskar Borgþórsson og Egill Jónsson, eru ósáttir við að breytingarnar hafi verið gerðar án teljandi faglegrar umræðu og höfðu samband við Hafnfirðing, sem fylgdist með þessum óvenjulegu mótmælum. Málið fer fyrir bæjarstjórn nk. miðvikudag.





„Egill átti þessa hugmynd síðan við vorum í baráttu við bæinn um þennan reit fyrir einu og hálfu ári. Ég dró aðeins úr þessu hjá honum en svo var hann bara byrjaður í morgun, grjótharður!“ segir Jóhann. „Það var lítið hlustað á íbúana þegar þeir mótmæltu. Fínni upphaflegri arkitektavinnu var hent út um gluggann þegar íbúðum var fjölgað úr fimm í átta. Þannig verður þetta miklu þéttari byggð. Það var alltaf sagt að það yrði byggt í takti við umhverfið, en að okkar mati er raunin ekki sú. Og það er búið að færa byggingasvæðið um tæpa fjóra metra og því verður gerð fylling í hraunið, í trássi við það sem talað var um. Þetta verður eins og kastali í miðju húsahverfi,“ segir Egill.
Í júní 2017 var ákveðið hjá Hafnarfjarðarbæ að breyta reitnum þar sem áhaldahúsið var við Hrauntungu úr atvinnusvæði í íbúasvæði. Þá var tekið fram að byggðin ætti að vera lágreist í samkvæmi við umhverfi.


„Þetta var svo bara auglýst og fundargerðir líka. Það var ekki fyrr en að íbúar við Hraunbrún 51 og 53 gengu á milli húsa hér og sögðu okkur frá áætlunum bæjarins. Við fórum af stað þegar skipulagið var komið á kynningarstig og við höfðum miklar athugasemdir við skipulagið. Tregðan sem við fundum fyrir var að bærinn átti lóðina og hugmyndir voru fullunnar sem verktakinn, G.S. hús ehf., keypti og farið var af stað og átti að reyna að fá í gegn deiliskipulag sem íbúum við Hrauntungu fannst ekki vera lágreist byggð og ekki falla að umhverfinu og fengum vissar breytingar í gegn, þótt við værum ekki alveg sátt,“ segir Jóhann.


Þegar lóðin varð seld verktakanum segir Jóhann engar aðrar kvaðir hafa verið en ríkjandi deiliskipulag og vissa um lóðirnar sem fylgdu með. „Verktakinn fór svo fram á breytingatillögu og hann og byggingafulltrúinn hentu á milli sín hugmyndum sem er önnur en okkur var lofað. Það var samþykkt í skipulags- og byggingaráði 5. maí sl., af sama fólki og við vorum í samræðum við fyrir 2 árum, og núna hefur lóðarhafi lagalegan rétt til að biðja um deiliskipulagsbreytingu á eigin lóð. Breytingin er sú að nýja teikningin er lægri en það er búið að fylla út í þakið þannig að skuggafallið er meira en áður. Það er búið að gera ráð fyrir stigapöllum utan á húsin svo að þegar verðandi íbúar í þessum nýju húsum fara inn og út úr sínum húsum þá sjá þeir yfir girðinguna og beint ofan garðana hjá mér og Agli. Ég lít þannig á að við vorum svikin. Það verður aldrei kynning á skuggafallinu fyrr en búið verður að fullvinna deiluskipulagið. Þá verður ekkert hægt að gera.“



Jóhann segir að öll undibúningsvinna skipulags- og byggingafulltrúa vegna þessa máls virðist bara hafa verið hent í ruslið. „Þetta fer fyrir bæjarstjórn á miðvikudag og við erum að reisa veginn í raunhæð til að vekja athygli á málinu og reyna að fá bæjarstjórn til að vísa þessu aftur í skipulags- og byggingaráð og segja að þetta sé ekki í takti við það sem upphaflega var ákveðið. Ef bæjarstjórn samþykkir þetta eins og það liggur fyrir núna, þá gefur hún einnig grænt ljós á samtal á milli lóðarhafa og skipulags- og byggingafulltrúa um að útfæra nýja skipulagið. Reynsla okkar er bara sú að þegar farið er í útfærsluvinnuna þá verður ekki aftur snúið,“ segir Jóhann.
Hér má sjá allt efni af vefsíðu Hafnarfjarðarbæjar um skipulagsbreytingar við Hrauntungu 5.