Á fundi fjölskylduráðs þann 6. nóvember sl. voru samþykktar reglur Hafnarfjarðar um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. Bæjarstjórn samþykkti svo þessar reglur samhljóða á fundi sínum þann 11. nóvember sl.
Markmið þessara reglna er að veita foreldrum, forsjáraðilum og eftir atvikum vistunaraðilum stuðning við uppeldi barna eða til að styrkja þá í uppeldishlutverki sínu svo þeir geti búið börnum sínum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði. Einnig er stuðningurinn til handa börnum og fjölskyldum þeirra sem þurfa aðstoð vegna fötlunar, skerðinga, langvinnra veikinda og/eða félagslegra aðstæðna. Áhersla er einnig lögð á að styrkja fatlaða foreldra við að halda heimili og taka þátt í samfélaginu.
Stuðningurinn getur verið í formi:
- Foreldrafræðslu og uppeldisráðgjafar.
- Námskeiða.
- Hópastarfs fyrir 6 – 18 ára.
- Einstaklingsstuðnings fyrir 6-18 ára.
- Stuðningsfjölskyldna fyrir 0 – 18 ára.
- Skammtímadvalar fyrir fötluð börn með miklar þroska- og/eða geðraskanir á aldrinum 6 – 18 ára.
- Notendasamninga.
Mat á stuðningsþörf er gert í samvinnu umsækjanda og ráðgjafa og tekur mið af þörfum fjölskyldunnar. Mat á stuðningsþörf fer fram hjá fjölskyldu- og barnamálasviði, á heimili umsækjanda eða á öðrum vettvangi umsækjanda.
Með þessum reglum er verið að setja í einar reglur stuðning við börn og fjölskyldur sem byggðar eru á þrennum lögum: lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og barnaverndarlögum. Þetta styður við heildstæða sýn á stuðning við fjölskyldur. Þetta styður okkur þegar nýtt farsældarfrumvarp verður að lögum og stigskipt þjónusta við börn verður að veruleika. Mikilvægar reglur sem styðja líka við áherslur okkar í starfi Brúarinnar. Ekki er t.d. þörf að mál sé skilgreint sem barnaverndarmál til að fá stuðning samkvæmt reglunum.
Reglurnar voru unnar af starfsmönnum á fjölskyldu- og barnamálasviði. Ráðgjafaráð í málefnum fatlaðs fólks veitti sína umsögn. Virkilega góð vinna sem hefur skilað þessum góðu reglum.
Hér er um að ræða mikilvægar reglur og bætta þjónustu við hafnfirsk ungmenni og fjölskyldur þeirra.
Valdimar Víðisson
Formaður fjölskylduráðs