Þrjár hafnfirskar menningarstofnanir; Pollapönk, Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Kór Öldutúnsskóla leiða saman hesta sína á stórtónleikum í Íþróttahúsinu við Strandgötu laugardaginn 16. febrúar næstkomandi. Á efnisskránni verður úrval laga Pollapönkaranna í splunkunýjum útsetningum. Við hittum Rúnar Óskarsson, stjórnanda Lúðrasveitarinnar, Arnar Gíslason Pollapönkara og kórfulltrúana Lísbetu Heklu Halldórsdóttir, Áróru Gunnvöru Þórðardóttur og Bríeti Jónsdóttur.

Hugmyndina að tónleikunum fékk Rúnar fyrir mörgum árum. „Mér fannst Pollapönkararnir hressir, litríkir, jákvæðir og fyndnir og setti mig í samband við þá árið 2013. Þeir voru til í þetta en við tók þátttaka þeirra í Eurovision. Ég setti því aðeins í salt þar til fyrir einu og hálfu ári,“ segir Rúnar og bætir við að þá hafi þeir aftur verið til í að standa að stórum hafnfirskum fjölskyldu-menningarviðburði. „Við vildum fá Kór Öldutúnsskóla með og það hefur ekki heyrst eitt nei í öllu ferlinu. Undirbúningurinn er búinn að vera flókinn og tónlistin útsett upp á nýtt, en þetta er allt að koma.“

100 krakka kór
Lísbetu, Áróru og Bríeti finnst mjög gaman að taka þátt í þessu verkefni. Þær segjast hafa haldið upp á Pollapönk þegar þær voru litlar, sáu þá í Eurovision og muna mest eftir 113 Vælubílnum. „Pabbi talaði oft um að hringja á Vælubílinn ef ég var eitthvað að grenja,“ segir Lísbet og hlær. Þær stöllur eru á 2. ári í eldri kórnum og eru með sína hverja kórröddina. Báðir kórarnir syngja á tónleikunum í sumum laganna, alls 100 krakkar. „Það besta við að syngja í kór er að geta sungið og ekki vera feimin í kringum alla. Það heyrist ekki einhver ákveðin rödd, heldur öll heildin,“ segir Áróra. Þær hafa farið á stór erlend og innlend kóramót en segja þennan viðburð vera einn allra stærsta sem þær hafa tekið þátt í. „Það eru bara tveir strákar í stóra kórnum, það vantar fleiri,“ segir Bríet og hvetur stráka til að koma í kórinn.

Lísbet Hekla Halldórsdóttir, Áróra Gunnvör Þórðardóttir og Bríet Jónsdóttir.

Nýtt lag á leið í spilun
Arnar segir rosalega gaman að sjá lög Pollapönks verða til í svona stórum útsendingum eins og á þessum tónleikum. „Við þurfum að aðlaga okkur að því að fá kraftinn frá lúðrasveitinni og kórnum. Okkar metnaður hefur alltaf verið að gera skemmtilega tónlist fyrir fólk á öllum aldri, með boðskap sem berst sem víðast. Svo verðum við í íþróttahúsinu við Strandgötu. Það verður ekki hafnfirskara! Hjá okkur er mikil tilhlökkun, stífar æfingar og við náðum strax vel saman með Lúðrasveitinni. Hafnfirðingar og nærsveitamenn hljóta að fjölmenna!“ Þá muni þeir mögulega að setja nýtt lag í spilun, Garðar rannsakar, en það er um einkaspæjara sem finnur út hver stal stuðinu. „Við erum tilbúnir með nýja plötu sem við káruðum fyrir þónokkru og ætlum að finna bestu veituna til þess að dreifa henni.“

Viðburðurinn er á Facebook undir heitinu Pollalúðrapönk og miðasala er hafin á midi.is.


Myndir: Ólafur Már Svavarsson