Þátttaka Hafnfirðinga á Stóra plokkdeginum fór framan björtustu vonum þeirra sem að honum stóðu. 500 kíló af rusli voru týnd upp meðfram Reykjanesbrautinni og í hrauninu þar við, alls 70 pokar.

Árdís Ármannsdóttir, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar og Heimir Sigurðsson, sérlegur hreinsunarstjóri Umhverfisvaktarinnar hjá Hafnarfjarðarbæ, skiptu með sér að stjórna Hafnarfjarðarplokkinu. Meðal þátttakenda voru Sævar Helgi Bragason, hinn mikli umhverfisverndarsinni, ásamt unnustu sinni Þórhildi Fjólu Stefánsdóttur, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og heilu fjölskyldurnar fylltu heilu pokastæðurnar. Fjarðarpósturinn fylgdist með og fékk að trufla duglega og kraftmikla fulltrúa til að vera á myndum.

Árdís og Heimir.

Samkvæmt talningu plokkari.is hreinsuðu plokkarar svæði á landsvísu sem nemur um það bil 17,32 km2 en til viðmiðunar er flatarmál Vestmannaeyja 17 km2. Það mætti því segja að plokkarar landsins hafi hreinsað hvern ferkílómeter Vestmannaeyja og rúmlega það.

Stjörnu-Sævar og Þórhildur Fjóla.

Ruslið sem tekið var úr náttúrunni okkar er að langmestu leyti úr þremur flokkum:
1. Byggingaplast hverskonar, einangrunar- og pökkunarplast frá framkvæmdasvæðum.
2. Rusl og pappi sem fokið hefur frá illa umbúnum ruslatunnum og gámum sem ýmist hafa fokið um koll eða fokið upp í roki og dreifa ruslinu um allt. Þetta á bæði við um heimili og verslunarsvæði.
3. Plaströr og plastlok af skyndigosglösum, einnota kaffimál og drykkjarílát hverskonar.

Í fréttatilkynningu skorar Einar Bárðarson, einn stjórnenda Stóra plokkdagsins, á heilbrigðiseftirlit landsins um að taka upp „ó-umburðarlyndi“ gagnvart lóðareigendum og framkvæmdaraðilum sem ekki sýna umhverfinu sínu virðingu og nýta að fullu öll þau úrræði sem fyrir hendi eru til að koma í veg fyrir frekari skaða. „Við hvetjum sveitarfélögin sem eru eigendur að Sorpu að taka ábyrgari afstöðu með umhverfinu í þeim rekstri og fara í markvissar og sýnilegar aðgerðir til betrunar. Þá hvetjum við sveitarfélög og almenning til að ganga úr skugga um það að sorp sé vistað í ruslatunnum og gámum sem ráða við verkefnið og séu vindheld með öllu.“

Stöðugt bætist í hópinn Plokk á Íslandi, en þar birtir fólk myndir af rusli og svæðum sem hafa verið tekin fyrir og hreinsuð. Lokamarkmiðið er að kortleggja Ísland og hreinsa það allt.

Myndir/OBÞ