Um næstu mánaðamót verður deilt fyrsta innslagi glænýs hlaðvarps Hafnfirðings. Hlaðvarpið hefur hlotið heitið Plássið og segir Olga Björt Þórðardóttir, útgefandi og ritstjóri Hafnfirðings, nafnið eiga sér margar skírskotanir, en hún mun stýra hlaðvarpinu og sjá um þáttagerð. Undirbúningur hefur staðið yfir undanfarnar vikur og segir Olga Björt að Plássið muni hafa fjölda þáttaliða sem hver og einn verði sjálfstæður og umfjöllunarefnið fyrst og fremst hafnfirskt en höfða þó til miklu víðari hóps hlustenda.

„Það var orðið fullreynt með að halda uppi prentmiðli fyrir Hafnfirðinga á erfiðum tímum og ég tók því hlé í apríl til að leggjast undir feld með framhaldið og ná áttum og heilsu. Hugmyndin að hlaðvarpinu kviknaði svo í júlí og ég fékk frábær viðbrögð með óskum um ábendingar um mögulegt efni. Ég ákvað því að taka pláss í bænum, aftur“ segir Olga Björt, en hún lærði meðal annars viðtalstækni og þáttagerð í MA-námi í blaða- og fréttamennsku árin 2011-2013.

Einkennismerki Plássins sem listamaðurinn Gunnar Júlíusson hannaði.

Prentmiðilinn áfram í salti

Olga Björt segir að ekki sé launungarmál að rekstrarumhverfi fjölmiðla verði æ erfiðara og þótt hún hafi haft mikla ánægju af því að gefa út prentmiðilinn Hafnfirðing, þá verði að horfast í augu við það að sá rekstur fór síðustu mánuðina fyrst og fremst í að greiða skatta, prentsmiðju og dreifingafyrirtæki. „Raunsæið verður að tikka inn einhvers staðar, þótt það geti verið erfitt þegar ástríðan fyrir starfinu og verkefnunum er mikil. Ég held því áfram að hafa blaðið mitt í salti og legg áherslu á annars konar fjölmiðlun. Vefsíða Hafnfirðings verður t.a.m. virk og aðsendar greinar og ýmist annað efni verður velkomið. Ég fagna öllum ábendingum þótt áherslan verði ekki á fréttir.“ Hún segist munu áfram mæta á einhverja viðburði og bjóða upp á kynningar fyrir fyrirtæki og aðila á vefsíðunni eins og áður. Það verði einnig hægt að búa til skemmtilegt tvist í slíkri markaðsetningu með hlaðvarpinu. „Ég geri mér grein fyrir að það mun taka tíma að byggja svona nokkuð upp en bjartsýni með dassi af hvatvísi eru mér í blóð bornar.“

Olga Björt hefur nýtt nám sitt og þekkingu sína vel og látið reyna á ýmis konar fjölmiðlun fyrir Hafnfirðinga, m.a. beinar útsendingar í Hafnarborg á aðventunni 2018 og tvær slíkar snemma áris 2019.

Kynningar fyrir fyrirtæki verða áfram í boði með nýju tvisti sem Olga Björt hvetur eigendur og markaðsstjóra til að kynna sér:

Notast við ferða-hlaðvarpstæki

Olga Björt mun notast við handhægt ferða-hlaðvarpstæki sem Óli Jóns hlaðvarpari lánaði henni, en það gerir henni kleift að taka upp innslög hvar sem er og segir hún umhverfishljóð gefa slíku efni mikilvægan blæ. „Ég mun taka alls kyns fólk tali á minn hátt og fjalla um málefni sem ég hef mestan áhuga á, s.s. list, menningu, lýðheilsu, menntamál, heilbrigðismál, jafnréttismál, atvinnumál og fleira. Það veitir ekki af uppbyggjandi efni í flóruna um þessar mundir. Geðheilsa landans er víða orðin tæp og það er eftirspurn eftir mannlegu efni af því sem við fáumst við daglega.“ Hvert innslag verði um 10 – 30 mínútur en dýpri viðtöl verði lengri. Hún segir að mikil samkeppni sé um athygli sjóntauga fólks allan sólarhringinn og að eðlilega sé auðvelt að þreytast við að horfa á skjái og í síma og fletta í gegnum fjölmiðla og samfélagsmiðla, ofan á kannski vinnu tölvu líka. „Með hlaðvarpi gefst fólki kostur á að hlusta á innslög að eigin vali og lengd í umferðinni, útiverunni, við íþróttaiðkunina, við heimilisstörfin eða bara í rólegheitunum heima að kvöldi til eða í sumarbústaðnum; þegar hverjum og einum hentar.“

Dæmi um málefni sem auðveldlega er hægt að tækla í hlaðvarpi:

Margir sjálfstæðir dagskárliðir

Olga Björt stefnir á nokkur innslög á viku sem munu m.a. bera heitin Sko-ið, ForVitinn, Undir gaflinum, Nostalgían, Gættin, Heillaráðið, Atriðið og Fyrirmyndin og hverri upptöku fylgir a.m.k. ein mynd af viðmælanda og því sem rætt er um hverju sinni. „Svo kemur bara í ljós hvað vekur lukku og hvað ekki. Það er alltaf hægt að bæta við eða taka út liði. Einnig veit ég af Hafnfirðingum sem eru að prófa sig áfram með hlaðvörp eða halda úti slíkum og það er guðvelkomið að koma þeim á framfæri hjá mér og ég hvet þau til að hafa samband. Ég hlakka verulega mikið til, veit að ég verð í essinu mínu og vonandi smitast það til hlustenda. Það verður a.m.k. nóg pláss hjá mér og Plássið verður fyrir alla.“

Í stað opnuviðtals við Hafnfirðing ársins verður hlekkur á hlaðvarpsviðtal og myndir á vefnum:

Hildur Guðnadóttir var kjörin Hafnfirðingur ársins 2020 af lesendum og fylgjendum Hafnfirðings.

Verið að leita leiða til að fjármagna Plássið, m.a. með áhugasömum væntanlegum auglýsendum og stuðningsaðilum og Olga Björt segir það skýrast á næstu vikum. Eðlilega tekur tíma að byggja slíkan miðil upp og hún vonar að Hafnfrðingar hafi trú á þessu með henni.

Myndina af Olgu Björt tók Eva Ágústa Aradóttir.