Appelsínugul viðvörun gildir eftir hádegi í dag. Spáð er vaxandi norðaustan og síðar norðan 15-25 m/s, með skafrenningi og lélegu skyggni í fyrstu. Færð gæti spillst. Vægt frost, en um frostmark í kvöld og á morgun. Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson segir gamla lægð hafa valdið veðrinu í gær og ástandið sé mjög óvenjulegt.

Banaslys varð í gærkvöldi á Reykjanesbraut til móts við álverið í Straumsvík þegar fólksbíll og snjóruðningstæki rákust harkalega á. Þetta gerðist á einbreiða kaflanum, en skammt frá eru framkvæmdir vegna breikkun Reykjanesbrautar, sem áætlað er að ljúki í apríl.

Einar, sem heldur úti veðurathugunarsíðunni Bliku, segir í Facebook færslu að óveðrið í gær hafi komið vegna gamallar lægðar sem laumaðist að okkur úr vestri. Hún hafi verið um 944 hPa þegar hún fór með óveðri um allt vestanvert landið og framhjá Reykjanesi um miðjan dag föstudag.
„Við eigum því að venjast að lægðir fari hér hjá og hverfi sjónum okkar síðan út í buskann. En ekki þessi! Hún hringsólaði vestur af landinu og kom síðan aftur með stefnu á Reykjanes. Einhver spálíkön sýndu svo sem slíka þróun strax á föstudag og á laugardagskvöld sást skýjabakki á undan henni sem síðan snjóaði frá víða suðvestanlands á sunnudagsmorgni.“
Sjá má á samsettu veðurkortum Veðurstofunnar sem Einar útbjó, að lægðin hægði enn og aftur ferðina og tók reyndar enn einn snúningin til yfir Reykjanesskaga í gærkvöldi: https://www.facebook.com/100010495749434/videos/1051425728550609/?id=100010495749434

Einar segir að ekki hafi verið auðvelt að sjá þessa þróun alla fyrir og sérstaklega þá ferðir lægðarinnar. Versta veðrið hafi verið staðbundið og nokkuð ljóst að ef miðja lægðarinnar hefði verið svo að segja yfir Garðskaga á sínu hringsóli hefði sloppið mun betur til.
„Óveður þetta telst vera sérstakt og óvenjulegt í alla staði, en strandaðir snjókomubakkar úr vestri eru þó engin nýlunda að kljást við fyrir okkur veðurfræðingana, svo ekki sé talað um veðurlíkönin sem voru út suður i aðdragandanum, segir Einar.
Mynd af Einari/OBÞ