Hjónin Stefán Gíslason og Harpa Lind Harðardóttir stofnuðu fyrirtæki og opnuðu verslunina Willamia árið 2014, eftir að Stefán lauk atvinnumennsku í fótbolta. Willamia er húsgagnaverslun og vefverslun með ýmsa sérvöru og flutti fyrir tæpum mánuði frá Garðatorgi til Gjáhellu 3, í Hellnahverfið hér í bæ. Við ræddum við Stefán, sem segir staðsetninguna frábæra fyrir sýningarsal og lager og að gefist hafi tækifæri til að endurskipuleggja reksturinn og leggja meiri áherslu á enn persónulegri þjónustu.

„Við eigum ljúfa tengingu við Hafnarfjörð því fyrsta íbúðin sem við keyptum sem ungt par var í Svöluási og ég þjálfaði um tíma hjá Haukum,“ segir Stefán. Kveikjan að rekstrinum var vegna Uni og Uni-Ka stólanna frá ítalska framleiðandanum Et-al, en þeir stólar hafa notið mikilla vinsælda hér á landi. Hjónin hafa tekið að sér lítil og stór verkefni fyrir alls konar fyrirtæki en þar má nefna t.d. LS Retail, Center Hotel Plaza, Völku, Gullfoss kaffi og hótel B59 í Borgarnesi þar sem Harpa sá um alla innanhússhönnun.



„Þegar maður fer að lifa og hrærast í hönnunarheiminum dettur maður alltaf niður á sniðugar og áhugaverðar vörur, en við höfum einmitt lagt áherslu á að skapa okkur sérstöðu á markaðnum með vörumerkjum sem við höfum gerst umboðsaðilar fyrir.”


Ásamt því að veita fyrirtækjum þjónustu eru einnig í boði vönduð húsgögn frá þekktum ítölskum framleiðendum eins og Sovet Italia og Saba Italia. „Í kringum þau vörumerki hefur skapast samstarf við innanhússarkitekta þegar velja á vönduð og falleg húsgögn og spegla inn á heimili landsmanna. Í netversluninni verður lögð áhersla á gjafavörur á borð við Knit Factory sem er ótrúlega vinsælt og frönsku sælkeravörurnar frá Savor & Sens sem landinn kaupir mikið af, sérstaklega fyrir jólin sem jólagjafir og fyrirtækjagjafir.“



Opna netverslun í Noregi
Fyrirtækið er á leið í útrás, því á næstu vikum mun netverslunin Willamia opna í Noregi með Knit Factory vörurnar. „Það kom til vegna þess að á milli okkar og eigenda Knit Factory í Hollandi hefur myndast mikill vinskapur. Þau eiga í fullu fangi með að sinna eigin markaði og löndunum í kring og hafa ekki tíma til að sinna öðrum svæðum. Því varð úr að við sömdum við þau um að við munum sjá um Skandinavíumarkað. Það var því nauðsynlegt fyrir okkur að fara í ákveðnar breytingar á rekstrinum hér heima til að geta sinnt þessu öllu.“

Opnunartíminn verði styttri, en í staðinn verði hægt að bóka fund ef fólk vill koma á öðrum tíma. „Þannig getum við tryggt bæði öryggi á þessum skrýtnu Covid tímum og viðskiptavinurinn fær enn persónulegri þjónustu. Flestir eru líka búnir að skoða vörurnar á netinu og ákveða sig eða jafnvel kaupa þær á netinu og koma hingað til að sækja, en við sendum einnig um land allt. Við erum líka mjög þakklát og ánægð með móttökurnar á nýja staðnum; ótrúlega margir hafa þegar spottað okkur hér og fagna því að við séum komin í bæinn, enda er stór hluti okkar Hafnfirðingar,“ segir Stefán og bætir við að endingu: „Þótt Íslendingar séu óvanir svona fyrirtækjum í iðnaðarhverfum er það einmitt algengt víða erlendis. Við viljum ryðja þá braut og hvetja allskonar fyrirtæki til að koma í þetta ört vaxandi hverfi.“
Myndir/OBÞ
ÞESSI UMFJÖLLUN ER KYNNING