Í janúar 2016 var tekið upp það verklag hjá Hafnarfjarðarbæ að sækja þyrfti um stöðuleyfi vegna gáma og að innheimt yrðu stöðugjöld af þeim. Þetta átti við um alla lóðarhafa atvinnu- og íbúðarlóða nema þá sem eru með skilgreint gámasvæði samkvæmt skipulagi. Öllum eigendum lóða, þar sem vitað var til að gámar væru til staðar til lengri eða skemmri tíma, var sent dreifibréf tveimur árum síðar og gert að sækja um leyfi fyrir þá gáma sem bærinn taldi að væru á lóð þeirra. Þeim var gefinn frestur og tekið fram að greiða þyrfti gjald fyrir hvert leyfi fyrir hvern einstakan gám, mismunandi hátt eftir stærð gáms. Nú liggur fyrir úrskurður Kærunefndar umhverfis- og auðlindamála frá 27. október, sem Jón Auðunn Jónsson hrl, segir staðfesta að forsendur bæjarins, túlkun hans á laga og reglugerðarákvæðum og framkvæmd hans á innheimtunni hafi verið ólögmætar, í tveimur meginatriðum; bærinn hafi innheimt gjöld og lagt dagsektir á rangan aðila, þ.e. lóðareigandann, og hafi haft rangt fyrir sér varðandi lóðir með skipulögð geymslusvæði. Lögmaður hjá Hafnarfjarðarbæ segir að fyrst og fremst hafi verið reynt á túlkun þess hvað telst vera „sérstaklega skipulagt svæði“.

„Það var ekkert við upphaflegt verklag að athuga, enda kveðið á um skylduna til að sækja um stöðuleyfi í byggingarreglugerð. Nokkur atriði voru gagnrýnd af þeim sem fengu þessi bréf, þ.á.m. fjárhæð stöðugjalda, að hún ætti að margfaldast eftir fjölda gáma, að eigandi væri krafinn um þetta en ekki eigandi gáms og loks að skipulögð gámasvæði inni á iðnaðarlóðum væru ekki viðurkennd,“ segir Jón Auðunn. Fjöldi aðila hafi mótmælt allri framkvæmd bæjarins og túlkun hans á Mannvirkjalögum og Byggingarreglugerð. „Samtök iðnaðarins tóku undir málstað þessara aðila og hófu viðræður við bæinn. Í leiðbeiningum sem Mannvirkjastofnun gaf út var tekið undir málsástæður og túlkun þessara aðila. Þetta skipti engu máli. Stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar vissu greinilega betur en sjálf Mannvirkjastofnun.“

Hluti af Hellnahverfi, þar sem vel sést að fjöldi gáma er. Mynd/skjáskot af Google Earth.

20 þúsund á dag 

Jón Auðunn segir að bréfum hafi rignt yfir bæjaryfirvöld með mótmælum, athugasemdum og rökstuðningi. Efnt hafi verið til funda með bæjarstjóra, bæjarlögmanni og byggingarfulltrúa. En það hafi ekki skilaði neinu. „Þeim sem enn þráuðust við var hótað öllu illu. Á einhverju tímamarki var þeim hótað því að byggingafulltrúi kæmi með krana og flutningavagn til að fjarlægja gámana, á kostnað eigenda, en enginn fékkst í þessa flutninga fyrir bæinn. Þá greip byggingarfulltrúi til þess ráðs að leggja á menn dagsektir. Tuttugu þúsund krónur á dag! Jafnt á félög sem einstaklinga. Um leið var þeim tilkynnt að sektirnar yrðu felldar niður ef þeir drusluðust til að sækja þegjandi og hljóðalaust um stöðuleyfi og greiddu uppsett verð.“ Fjöldi lögfræðinga hafi á þeim tímapunkti bent á að ekki væri dagsektaheimild við því að sækja ekki um stöðuleyfi, en enginn hafi hlustað. „Lóðareigendur sáu í heimabankanum ævisparnaðinn sinn hverfa í greiðslu dagsekta. Þeir brotnuðu saman og gáfust upp. Gátu ekki tekið áhættuna og greiddu uppsett gjöld.“ Nú liggi úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir. „Ég hef enn ekki hitt neinn, þ.e. sem ekki er starfsmaður bæjarins, sem telur þá aðferð vera í samræmi við lög.“

Hellnahverfið er ört vaxandi hverfi ólíkra fyrirtækja. Mynd/OBÞ

Ekki rétt að bærinn hafi innheimt rangan aðila

Lögmaður hjá Hafnarfjarðarbæ svaraði fyrirspurn Hafnfirðings vegna þessa máls og hann sagði ekki rétt að útskurðað hafi verið að Hafnarfjarðarbær hafi innheimt gjöld og lagt dagsektir á rangan aðila, þ.e. lóðarhafann. Á það atriði hafi í raun ekki reynt í málinu. „Málið snérist fyrst og fremst um túlkun og skýringu á ákvæðum laga um mannvirki nr. 123/2010 og ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þannig segir í byggingarreglugerðinni að sækja skuli um stöðuleyfi ef láta á t.d. gám standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna. Reyndi því fyrst og fremst á túlkun þess hvað telst vera „sérstaklega skipulagt svæði“.

Yfirferð yfir úrskurðinn ekki lokið

Hvorki í mannvirkjalögum né byggingarreglugerð sé skilgreint hvað sé átt við með „skipulögðu svæði“ í því sambandi. „Í samræmi við almenna hugtakanotkun í mannvirkjalögum, byggingarreglugerð og skipulagslögum nr. 123/2010 hefur Hafnarfjarðarbær þó miðað við að átt sé við svæði sem hafa verið sérstaklega skipulögð, skilgreind eða afmörkuð sem gámasvæði í deiliskipulagi (og eftir atvikum einnig í aðalskipulagi). Á þessi sjónarmið féllst úrskurðarnefndin hins vegar ekki og telur hún að í málinu hafi verið nægilegt að gera grein fyrir gámastæðum á aðaluppdráttum lóðarinnar eða byggingarnefndarteikningum, þrátt fyrir að ekki hafi verið sérstaklega fjallað um heimild fyrir gámastæðum í gildandi deiliskipulagi. Það hafi lóðarhafi gert árið 2001 og taldi nefndin því því ekki nauðsyn fyrir kæranda að sækja um stöðuleyfi vegna geymslu umræddra gáma á lóðinni,“ segir lögmaðurinn. Verið sé að yfirfara úrskurðinn hjá sveitarfélaginu með tilliti til þessa og þeirri vinnu sé ekki lokið, eins og einnig kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ, að gefnu tilefni.

Forsíðumynd/OBÞ